143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

brottnám líffæra.

34. mál
[11:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég var upprunalega á málinu en við meðferð þess hjá hv. velferðarnefnd kom mjög skýrt fram að það eitt og sér að breyta þessu gerði afskaplega lítið. Það er reynsla annarra þjóða, sérstaklega var Spánn oft nefndur, þar tók hátt í áratug að breyta þróuninni þannig að líffæragjöf ykist raunverulega nógu mikið til þess að teljandi væri. Það varð því alveg ljóst í störfum hv. velferðarnefndar að meira þarf til og annað. Með hliðsjón af því get ég ekki lengur stutt málið, eins og það er orðið, heldur frekar að lögð verði meiri vinna í að finna aðrar leiðir til þess að auka líffæragjöf án þess að þurfa að takast á við þessa annars mjög áhugaverðu spurningu um upplýst samþykki.

Ég tek undir og árétta orð hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar að hér greiðum við atkvæði um málsmeðferðina, ekki samþykkt eða synjun málsins sjálfs. Ég vænti þess að áframhaldandi umræða muni fara fram bæði hér í þingheimi og á meðal almennings og vona að þetta mál fái farsælan endi.