143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt um sögu þróunar vaxtabóta.

Það var þannig að strax á útmánuðum 2009, þegar við vorum í svartholi hrunsins eins og það gat verst orðið, hækkuðum við engu að síður vaxtabætur um rúmlega 2,5 milljarða á þágildandi verðlagi, sem sagt hátt á fjórða milljarð að núgildandi verðlagi. Við héldum síðan þeim hækkuðu vaxtabótum út í gegnum allt tímabilið. Ofan á það bættum við svo tvisvar sinnum 6 milljörðum kr. í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu árið 2011 og 2012. Enda þegar best lét á árinu 2011 vorum við að greiða niður yfir 30% af heildarvaxtakostnaði heimilanna í landinu vegna íbúðalána. Það munaði nú dálítið um það. Á núgildandi verðlagi voru fjárhæð vaxtabóta og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu talsvert á þriðja tug milljarða, á verðlagi ársins 2014. Um þetta skrifaði ég ágæta blaðagrein sem ég skal afhenda sessunaut mínum við tækifæri.

Sérstöku vaxtaniðurgreiðslurnar fóru til upp undir 80 þúsund heimila ef ég man rétt. Það voru eingöngu efnuðustu heimilin sem höfðu íbúðalán sem ekki (Forseti hringir.) fengu þá greiðslu þar sem það var eingöngu skert miðað við tiltölulega há eignamörk.