143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af skuldastöðu heimilanna sem hagstærðar, en skuldastaða heimilana er núna sem hlutfall af landsframleiðslu sú sama og líklega í kringum 2005 eða 2006. Ég fullyrði að við hefðum aldrei léð máls á því að fara í svona dýrar aðgerðir eins og við erum að tala um núna árið 2006. Flestum hefði þótt það tilefnislaust.

Engu að síður held ég að það sé áhyggjuefni hvað heimilin eru skuldsett. Ég held að við þurfum að innleiða ábyrgð í því hvernig við umgöngumst fjármál yfir höfuð, Íslendingar, og ríkið þarf að ganga á undan með góðu fordæmi og greiða niður sínar skuldir.

Ég held að þessi aðgerð og þær aðgerðir sem boðaðar eru þar sem ríkið ætlar að greiða hluta af skuldum fólks auki ekki fjárhagslega ábyrgð, fyrir utan að vera slæmt (Forseti hringir.) innlegg í hagstjórn vegna þess að þær munu auka þenslu og að öllum líkindum einkaneyslu og þar með viðskiptahalla.