143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum annað af tveimur skuldalækkunarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Hér er það séreignarsparnaðurinn sem á skattfrjálst næstu þrjú árin að greiða inn á verðtryggð húsnæðislán eða lán til öflunar íbúðarhúsnæðis, svo að það sé haft rétt. Ég ætla að játa að mér líður svolítið eins og ég búi ekki í sama landi og stjórnarmeirihlutinn, eins og hann búi í einhverju allt öðru landi en ég, það séu milljarðar — það er tilgreindur kostnaður fyrir ríkissjóð í þessu frumvarpi en hann hleypur á óljósum stærðum. Inngreiðslurnar gætu orðið 65–88 milljarðar, tekjutap ríkissjóðs 35–49 milljarðar. Það er heill landspítali. Við nálgumst að geta endurnýjað Landspítalann. Við vitum það náttúrlega ekki því það er mjög óljóst hver kostnaðurinn á að vera.

Framsóknarflokkurinn vann kosningasigur með gífurlegum kosningaloforðum um niðurgreiðslu skulda á kostnað hrægamma. Hrægammarnir virðast hafa horfið út af sjónarsviðinu og það eru nýir aðilar sem ætla að borga brúsann. Það eru börnin okkar, það eru lífeyrisþegar, leigjendur og kannski einhverjir fleiri sem við getum fundið sem geta tekið þetta á sínar herðar.

Það er vissulega þannig að með hruni fjármálakerfisins helltust skuldir yfir íslenskt samfélag. Skuldir ríkissjóðs fóru úr nánast engu upp í gríðarlega bagga, fyrirtæki riðuðu til falls og voru tekin í fang lífeyrissjóða og nýreistra banka og íslensk heimili lentu mörg hver í gríðarlegum vanda, vanda sem við höfum verið að takast á við sl. fimm ár, fetað okkur áfram og leitað ýmissa leiða. Ég held að allir í þessum sal geti verið sammála um að það þarf að gera betur, en það þarf að miða þær aðgerðir miklu nákvæmar ef við ætlum okkur að nýta fjármuni á sem bestan hátt fyrir samfélagið í heild. Það var fjöldinn allur af umsögnum um þetta mál eins og gefur að skilja. Ég ætla ekki að fara að þylja upp úr þeim en mig rak í rogastans þegar ég las umsögn Seðlabanka Íslands því að þar er dregin upp þannig mynd að það ætti að vera öllum þingmönnum verulegt áhyggjuefni.

Seðlabankinn vitnar í Peningamál, 2. hefti 2014. Þegar þeir ræða að þar komi fram að áhrif þessara aðgerða, og þeir eru reyndar að gefa umsögn um bæði málin, muni auka hreinan auð heimila og ráðstöfunartekjur. Það er vissulega jákvætt og síst ætla ég að mæla gegn því að íslenskum heimilum farnist betur. Í vitna hér beint í umsögnina, með leyfi forseta:

„Bætt staða heimila muni auka við innlenda eftirspum en talið er að hagvaxtaráhrif aðgerðanna séu tiltölulega takmörkuð enda muni eftirspurnin að talsverðu leyti beinast að innflutningi. Þjóðhagslegur sparnaður muni því minnka og viðskiptajöfnuður verða lakari. Auk þess mun aukinn innflutningur auka þrýsting á gengi krónunnar. Lægra gengi krónunnar en ella og aukinn framleiðsluspenna gera það síðan að verkum að verðbólguþrýstingur verði meiri en ef ekki hefði verið farið í þessar aðgerðir. Þessi aukni verðbólguþrýstingur mun að hluta til koma fram í hærri vöxtum Seðlabankans.“

Þeir ljúka síðan umsögn sinni á þessum orðum, herra forseti:

„Hins vegar er skattalegt tap ríkissjóðs í framtíðinni vegna minni skattskyldrar úttektar á séreignarlífeyrissparnaði ófjármagnað.“

Nú ætla ég að einbeita mér að nefndarálitinu sem fylgir frá meiri hlutanum um þetta frumvarp. Þar er farið yfir þessar stóru stærðir sem við þekkjum ekki, hvað fólk ætlar að greiða mikið inn, en það er áætlað að með hækkun á séreignarsparnaðarþakinu sem kemur hérna út úr — ég fæ engar almennilegar skýringar á því af hverju við áttum þarna milljarða aukreitis til að greiða niður lán þeirra tekjuhærri — umfangið er óljóst en það er áætlað á bilinu 65–88 milljarðar og er þá tekið inn í það þeir sem eiga ekki húsnæði en mundu spara fyrir húsnæði. Talað er um áhrifin á ríkissjóð og það eru 35–49 milljarðar, auðvitað á mjög löngu tímabili. Svo er reyndar tekið fram að það muni kosta 50 millj. kr. að búa til miðlæga rafræna gátt. Það verður pínu hjákátlegt en það er heiðarlegt að upplýsa okkur um þann kostnað.

Svo koma áhrif á sveitarfélögin. Þar er tekjutap. Reykjavíkurborg hefur bent á að neikvæð áhrif á árunum 2014–2017 séu 1,9 milljarðar. Meiri hlutinn telur óhjákvæmilegt að sveitarfélögin verði fyrir tekjutapi vegna úrræða frumvarpsins og þá skulum við muna að sveitarfélögin fjármagna grunnskóla, leikskóla, málaflokk fatlaðs fólks og félagslega þjónustu. Reykjavíkurborg fær ekki tekjur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir félagslega þyngri byrði en önnur sveitarfélög í þessu landi, eða eitt af þeim sem hafa hvað mesta félagslega byrði þannig að það verður í Reykjavík að finna leiðir til að mæta þessu tekjutapi. Það verður verkefni næstu árin í sveitarfélagi sem eins og öll önnur hefur þurft að skera niður og hagræða og sameina skóla og taka á sig alls kyns erfiðleika og staðið sig vel í því, en nú skal haldið áfram því að hér verður tekin ákvörðun um að rýra tekjur Reykjavíkurborgar. Við vitum reyndar ekki alveg hversu mikið en meiri hlutinn hefur engar sérstakar áhyggjur af því.

Síðan er talað um áhyggjur af lífeyriskerfinu og það má velta því fyrir sér því að tekin var sú ákvörðun í tíð síðustu ríkisstjórnar að opna á útgreiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði. Ég var ein þeirra þingmanna sem höfðu efasemdir um það og taldi ekki gott að fara að vasast í kerfum. Um leið og kerfið er opnað er opnað á ákveðnar breytingar. En þetta var við mjög óvenjulegar aðstæður og ákveðið var að gera þetta en það var ekki fallið frá skattgreiðsluprinsippinu. Núna á ég, og fleiri, að fá tækifæri til að losna undan skattgreiðslum af lífeyrissparnaðinum mínum og greiða niður lánið mitt. Ég mun ef þetta frumvarp verður að lögum geta nýtt mér þá velgjörð meiri hlutans en sjúkraliðinn eða kennarinn sem er að fara á eftirlaun og á séreignarsparnað og er að taka hann út, þeir greiða skatt af sínum lífeyrissparnaði. Ég sé ekkert réttlæti í slíku þó að það sé göfugt markmið að greiða niður skuldir sínar.

Svo koma áhrif á Íbúðalánasjóð. Ég ætlaði reyndar að segja áður en lengra er haldið að séreignarlífeyrissparnaðurinn er þriðja stoð lífeyriskerfisins á Íslandi. Við erum með þrjár stoðir, almannatryggingakerfið sem hið opinbera fjármagnar, lífeyrissjóðina sem eru sameignarsjóðir og við söfnum í og berum ábyrgð hvert á öðru í þeim sjóðum rétt eins og í almannatryggingakerfinu, og síðan eru við með séreignarsparnaðinn sem er viðbótarsparnaður til að fólk hafi meira á milli handanna þegar það fer á eftirlaun. Yfirleitt tekur fólk þetta út þegar það er á góðum aldri, enn þá í fullu fjöri og hefur þörf fyrir ágætisráðstöfunartekjur.

Ég hef áhyggjur af þessu kerfi og ég held að það sé ástæða til að meiri hlutinn, ef hann ætlar að samþykkja þetta, velti því rækilega fyrir sér hvort það þurfi að fara í aðgerðir á sviði lífeyrismála. Áhrifin á Íbúðalánasjóð verða enn verri en ella en meiri hlutinn bendir á í nefndaráliti, með leyfi forseta, að um þessar mundir sé: „unnið á heildstæðan hátt að málefnum Íbúðalánasjóðs í velferðarráðuneytinu. Einnig má benda á að stjórnvöld geta brugðist við með aðgerðum til að draga úr kostnaði sjóðsins.“

Það er ekki sagt hvaða undraaðgerðir það eru en þó að unnið sé á heildstæðan hátt á vanda sjóðsins þá hverfur þessi kostnaður ekki, svo því sé til haga haldið.

Það er talað um aðra hópa sem eru ekki í sigtinu í þessum aðgerðum. Það eru lífeyrisþegar, þeir sem eiga búseturétt hjá húsnæðissamvinnufélagi og leigjendur, nema þeir geta safnað fyrir útborgun í húsnæði en ef þú ert mjög tekjulágur eða öryrki á lægstu bótum þá mun ekki safnast mikið í þann sjóð fyrir útborgun í húsnæði. Síðan eru það námsmenn erlendis. En svo er tekið fram að þeir fái sinn skerf þegar verður haldið áfram með þetta kerfi með séreignarlífeyrissparnaðinn. Hér gerir meiri hlutinn ráð fyrir því að svo verði.

Svo er sagt að í tillögum verkefnisstjórnar sé gert ráð fyrir aðgerðum til handa leigjendum. Það er gott og vel. Margt af því eru mjög góðar tillögur en er það þá þannig, getur meiri hlutinn upplýst um að það liggi fyrir tillögur eða áætlanir um fjármögnun á þeim tillögum? Hér virðast menn hafa frjálsar hendur hvað varðar útdeilingu úr ríkissjóði en það virðist eitthvað tregara þegar maður les tillögur verkefnisstjórnarinnar og fær þar bókun sjálfstæðismanns um að ríkissjóður geti ekki borið kostnað af þeim tillögum, þannig að nú er ég í ákveðnum vanda, herra forseti.

Niðurstöðurnar eru að frumvarpið hvetji til aukinnar vinnu og sparnaðar. Það er ágætt að spara en varðandi aukna vinnu þá viljum við öll fjölga atvinnutækifærum en ég lít ekki á það sem jákvætt að Íslendingar, hver og einn, vinni meira. Þetta land á helst við þann vanda að etja hvað það varðar að hér er framleiðni heldur lægri en æskilegt væri á meðan fáir Evrópubúar vinna jafn langan vinnudag og Íslendingar. Hér er atvinnuþátttaka hvað hæst í Evrópu. Íslenskir karlmenn vinna langtum lengri vinnudag en til dæmis kynbræður þeirra á Norðurlöndum sem og íslenskar konur sem eiga flest börn í Evrópu. Ég er algjörlega andsnúin því að það sé sérstakt fagnaðarefni að við förum að vinna meira, en ég er tilbúin til að taka þátt í aðgerðum sem auka framleiðni í íslensku atvinnulífi.

Þá komum við að því að meiri hlutinn talar um að fátt sé mikilvægara en að fólk dragi úr skuldsetningu á húsnæði. Fyrir um það bil 10 árum var hér á sama vettvangi talað fyrir 90% lánum til íslenskra heimila, búið til kerfi, 40 ára jafngreiðslulán sem hafa þann eiginleika að þau mynda hægt eign í húsnæði en lækka greiðslubyrði. Á þeim tíma voru skapaðar forsendur til þess að ýmislegt fór úr böndunum síðar, sem og ýmsir aðrir þættir sem leiddu til þess. Þá var ekki verið að tala um að æskileg væri að íslensk heimili skulduðu ekki. Þá var þvert á móti lagt upp með þá stefnu að fólk safnaði sem mestum skuldum. Það var dýrkeypt æfing og nú fáum við aðra með óljósum afleiðingum þar sem á að reyna að snúa ofan af fyrra ævintýri.

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af því fyrirhyggjuleysi sem kemur fram hér í ýmsum óljósum afleiðingum og áhrifum. Ég legg til að þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi það sem dagskrárlið á næsta þingflokksfundi hvað megi læra af mistökunum sem þeir gerðu í ríkisstjórn sinni á árunum 2003–2007 þegar kom að húsnæðislánum og velti því fyrir sér hvort þeir ætli að bjóða þjóð sinni upp á aðra óvissuferð í þeim efnum.