143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:42]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst leitt að hv. þingmaður dragi hógværð mína í efa. Það er vissulega rétt að ég hef áratugum saman hvatt til sparnaðar, að fólk geti byggt upp sinn frjálsa sparnað, það sé hvati til þess að byggja upp frjálsan sparnað, t.d. með hóflegri skattlagningu en ekki ofurskattlagningu.

Ég sagði að ég hefði vissar efasemdir en lýsti ekki andstöðu við frumvarpið þannig að þingmaðurinn má ekki oftúlka það sem ég sagði.

Þá er eftir þetta með það hvort þetta leiði til frekari lántöku og að fólk verði áfram í sömu stöðu. Þeirri spurningu get ég ekki svarað en vissulega losnar um veðrými ef veðið er fyrirstaða skuldsetningar, en ég hef ekki séð það hingað til að veðrými hafi verið fyrirstaða til skuldsetningar í þessu landi. Í það minnsta hafa fjölskyldur náð að skuldsetja sig upp í rjáfur þannig að veðrýmið er ekki vandamálið. Þarfir fólks eru óendanlegar og ég reikna með því að svo verði áfram. Því miður get ég ekki svarað spurningunni nákvæmar.

Ég hef lokið máli mínu.