143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvort skuldalækkun hátekjufólks í dag gagnist endilega láglaunamanni eftir 20 ár. Ég sé ekki alveg að það sé samhengi þar á milli. Vissulega batnar skuldastaða margra og eftir því sem þeir eru skuldugri og eignameiri og féllu ekki undir þær aðgerðir sem voru á síðasta kjörtímabili því betur nýtist þetta því fólki. En ég sé ekki að það snerti komandi kynslóð beint að við stöndum hér í dag og þurfum ekki á slíkri aðstoð ríkisins að halda í formi skattafsláttur, í sparnaðarformi, til að greiða niður húsnæðislánin. Ég sé ekki að hægt sé að yfirfæra það á að komandi kynslóð njóti ávaxtanna af því. Ég er hrædd um að hún gjaldi fyrir það með því að sveitarfélögin verði ekki eins burðug til að halda uppi öflugu velferðarkerfi í samfélagi sínu og að ríkið verði líka vanbúið til að halda hér uppi öflugu velferðarkerfi og þurfi þá að halda áfram að skuldsetja sig og greiða himinháa vexti á ári hverju af skuldum ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera hinn dæmigerði Íslendingur að velta vandanum á undan sér og segja: Þetta hlýtur að reddast. Það hljóta að vera einhverjir aðrir sem geta reddað þessu í framtíðinni.