143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sérstakar vaxtabætur voru almenn aðgerð en mikið er talað um almennar aðgerðir og það voru eignamörk í þeim aðgerðum. Það hefði mér þótt að ætti að vera í þessu frumvarpi líka, að horft væri til eignamarka.

Hv. þingmaður talar mikið um að fólk sé í vanda og ég er algerlega sammála henni. En ég sé ekki að það fólk sem fær stuðning í þessu formi, fólk sem er í greiðsluvanda — hv. þingmaður talar um forsendubrest og fólk í greiðsluvanda, að það ráði ekki við sínar aðstæður — hafi, miðað við þær aðstæður, efni á því að leggja mikið fyrir til sparnaðar. Er það sá hópur sem hefur borð fyrir báru til að spara? Er það ekki frekar sá hópur sem hefur rýmri getu og hærri tekjur og getur lagt til hliðar sem nýtir sér þetta sparnaðarform, fer kannski úr öðru sparnaðarformi sem það hefur verið í og stekkur á þetta þar sem skattafsláttur er í boði og lækkar höfuðstól sinn?

Hvað gerum við ef verðbólgan fer aftur af stað eins og Seðlabankinn hefur sagt í umsögn sinni að gæti orðið framhaldið, þ.e. ef allt færi á verri veg? Þá er þetta horfið eins og dögg fyrir sólu ef verðbólgan fer af stað. Til hvers er þá unnið? Er ekki betra að greina þennan hóp miklu betur og koma til móts við það fólk sem ég held að hv. þingmaður sé að sönnu að tala fyrir. Hv. þingmaður verður bara að gera sér grein fyrir því að það eru svo sáralitlar bætur sem það fólk fær vegna þess að þessu er smurt heilt yfir og þeir fá aðstoð sem ekki þurfa á aðstoð að halda.