143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Í önnum hversdagsins erum við sífellt minnt á að heimurinn er einn og varðar okkur öll. Þátttaka okkar í Sameinuðu þjóðunum leggur okkur skyldur á herðar í þágu friðar, öryggis og mannréttinda hvar sem er í heiminum. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um að allir eigi að njóta mannréttinda án nokkurrar mismununar, þau séu algild.

Rán hinna herskáu Boko Haram samtaka á hundruðum ungra stúlkna í Nígeríu í þeim tilgangi að nota þær sem verslunarvöru er viðurstyggilegt mannréttindabrot. Stjórnvöld einstakra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagið bera sameiginlega ábyrgð á því að mannréttindi séu virt. Ísland er aðili að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Við erum því skuldbundin til að leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn mannréttindabrotum gagnvart börnum og konum hvarvetna og það er ein meginstoðin í þróunarsamvinnu Íslands.

Við stöndum samt agndofa og allt of oft ráðalaus gagnvart þeirri grimmd og þeim viðbjóði sem viðgengst því miður allt of víða. Það er einungis hægt að reyna að gera sér í hugarlund þá örvæntingu sem hlýtur að þjaka stúlkurnar og foreldrana sem eru í fullkominni óvissu um afdrif þeirra. Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, öryggi og frið markaði tímamót í sögu Sameinuðu þjóðanna því að þar viðurkenndi öryggisráðið í fyrsta skipti sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar.

Í vinnu á grundvelli þessarar ályktunar er staðfest að ofbeldi gegn konum og stúlkubörnum í vopnuðum átökum sé mjög útbreitt og það sé fyrst og fremst kynbundið. Hið villimannslega rán á hundruðum stúlkubarna í Nígeríu er ein birtingarmynd þessa kynbundna ofbeldis.

Ég er sannfærður um að við þingmenn allir erum sammála um að fordæma kröftuglega aðgerðir Boko Haram og krefjast þess að stúlkurnar verði allar þegar í stað og skilmálalaust látnar lausar.

Ég hvet íslensk stjórnvöld til að beita sér í málinu af krafti og einurð.