143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og heyri að við deilum á margan hátt skoðunum um þetta kerfi. Það er mikilvægt að við skoðum það til frambúðar og í samspili við húsnæðismarkað. Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á húsnæðismarkaðinn og annars konar úrræði en endilega séreign. Þetta frumvarp snýst um skattleysi séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu verðtryggðra húsnæðislána og öflunar húsnæðis.

Það hefur komið fram í umræðum um húsnæðismarkaðinn að hér þurfi að auka framboð og hratt og fjölbreytt úrræði. Ég tek innilega undir þá umræðu og hef þá skoðun að hér þurfi líka að huga að félagslega kerfinu. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér þann möguleika að auka framboðið tiltölulega hratt til að ná niður verði?