143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar sem er fyrri hlutinn eða annar hluti af skuldalækkunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Skemmst er frá því að segja að ríkisstjórnin fór fram með miklum boðaföllum þegar þær aðgerðir voru kynntar til sögunnar og lá mikið á að koma þessu öllu saman á dagskrá, fyrst með þingsályktunartillögu. En ég hef trú á því og hef raunar orðið þess áskynja að menn eru orðnir nokkuð langeygir eftir því að fá að sjá hvað er í spilunum og ekki á morgun heldur hinn, þann 15. maí, á að vera hægt samkvæmt loforðum hæstv. forsætisráðherra, og raunar hefur hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar tekið undir þau loforð, að slá inn skuldastöðu sína í vefgrunn og í framhaldinu að sjá þá væntanlega einhverja niðurstöðu úr því hvað fáist út úr kerfinu en þó gerist það ekki fyrr en allir hafa sótt um sem verður ekki fyrr en í september. Þar til viðbótar kemur sá vandi og sú snúna staða að þegar allir hafa sótt um er ákveðið þak þar undir, þ.e. það er ákveðin heildartala sem summan þarf að rúmast innan. Á þeim tímapunkti situr hæstv. fjármálaráðherra uppi með það að gefa út reglugerð um hvernig í ósköpunum eigi að leysa úr því ef menn fara upp úr þakinu og hverjir eigi þá að gjalda þess. Það er síðari tíma mál.

Hæstv. ríkisstjórn hefur nú verið að fagna ári frá kosningum. Ég verð að segja að það er nokkuð vandræðalegt að staðan skuli vera sú að ekki liggi ljósar eða skýrar fyrir nákvæmlega hverjar þessar úrbætur eru fyrir heimilin í landinu.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þessi mál og í raun og veru má segja að miklir kostir séu samfara þessum hluta skuldaleiðréttinganna, ég vil árétta að þessar leiðréttingar eru í gæsalöppum í máli mínu hér á eftir, að greiða fyrir því að fólk leggi sjálft af mörkum við lækkun skulda sinna, eins og fram kemur í nefndaráliti hv. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. En þó er það auðvitað þannig að nokkur vandkvæði eru þar á ferð, kannski í fyrsta lagi þau að úrræði frumvarpsins nýtast best þeim sem best standa. Ég hef ekki heyrt að hv. þingmenn og stuðningsmenn málsins hafi haldið öðru fram, hafa rökstutt það einfaldlega með því að þeir sem hafa umtalsverðar launatekjur eru í raun og veru með sterkustu stöðuna í þessum sjóðum og hafa þess vegna mesta möguleika á að nýta séreignarlífeyrissparnaðinn sér í hag.

Á hinum endanum er auðvitað sú staðreynd sem líka hefur mikið verið rædd og hún er sú að úrræðin ná ekki til þeirra sem verst standa. Ég vil nota þetta tækifæri til að höfða til samvinnuhjartans í Framsóknarflokknum því að þótt sá flokkur hafi því miður oft átt sögu af miklum kosningaloforðum og því miður oft skammsýnni nálgun á stjórnmál þar sem menn hafa verið að hugsa um skemmri tíma en lengri, þá hefur mér fundist svona gegnum tíðina Framsóknarflokkurinn eiga til býsna sterkt félagshyggjusjónarhorn. Því er það sérstakt áhyggjuefni þó maður horfi bara á þessi úrræði hérna, þennan hluta, að þetta nær ekki til þeirra sem verst standa, þ.e. öryrkjar sem hafa ekki launatekjur geta ekki nýtt sér þetta, ellilífeyrisþegar geta ekki nýtt sér úrræðin o.s.frv. Þetta frumvarp, þetta mál hér, er beinlínis til þess fallið að auka ójöfnuð í samfélaginu, burt séð frá því hversu menn eru sannfærðir um hve gott málið sé að öðru leyti. Það finnst mér áhyggjuefni.

Stóra aðfinnsluefnið er þó í mínum huga sú staðreynd að verið er í raun og veru að flytja skattbyrðina milli kynslóða og það er eitthvað sem er svo ótrúlega lítið reifað. Þetta er ófjármagnað inn í framtíðina og það er óábyrgt gagnvart ríki og sveitarfélögum, sérstaklega kannski sveitarfélögunum eins og kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þó að sambandið taki nú ekki eins djúpt í árinni og Reykjavíkurborg, enda vekur það athygli í ljósi þess að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það kann kannski að lita eitthvað áherslur hans í málflutningi í þessum efnum sem auðvitað ætti ekki að gera vegna þess að verkefni hans er auðvitað að standa vörð um hagsmuni sveitarfélaganna.

Nokkuð er liðið á umræðuna og ég ætla ekki að hafa þessa ræðu langa. En í nefndaráliti hv. minni hluta kemur fram að minni hlutinn telur að málið sé í heild sinni tæknilega hrátt og ekki tilbúið til afgreiðslu úr nefndinni og það sem í rauninni sé ógert og vanreifað eru frekari athuganir á efnahagslegum áhrifum þessa mikla inngrips. Þeim óskum var hafnað í nefndinni þannig að minni hlutinn vísar sem sé ábyrgð á öllum vanköntum sem upp kunna að koma á meiri hlutann og mun minni hlutinn gera og hefur gert í umræðunni, bæði í gær og í dag, ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til þessa mikla álitamáls.