143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég ætla að víkja talinu að þeim mikla kostnaði sem hv. þingmaður ræðir á bls. 6 í nefndaráliti, 121 milljarði, sem aðallega felst í hærri vöxtum sem eru afleiðing af þessum aðgerðum.

Hvernig leiðir það til hærri vaxta þegar skuldir heimila eru lækkaðar um 80 milljarða, höfuðstólslækkun? Það er ekki verið að greiða fólki pening út, ég ítreka það. Veðrýmið losnar mjög hægt og er þá ekki eina leiðin sú að það mundi taka frekari lán? Sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta fólk muni steypa sér í að skuldsetja sig aftur? Hvað með þá leið, þá aðgerð að auka kröfur um veðsetningarhlutfall, að menn veðsetji sig ekki upp í 80% eins og er núna heimilt, en kannski upp í 75%? Væri það ekki leið til að afstýra þessu í einni aðgerð án þess að þurfa að hækka vexti?