143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

samkeppnishindranir í fiskvinnslu.

437. mál
[10:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi bæta við hérna í lokin er að vekja athygli á greinargerð sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir ráðuneytið 2011 um kosti og galla þess að aðskilja fjárhagslega fiskveiðar og -vinnslu sjávarútvegsfyrirtækja. Þar kemur fram að talsverð hagræðing felist í samþættri fiskvinnslu og útgerð eins og við höfum stundað. Ég vil jafnframt geta þess að ég tel mikilvægt að horft sé til þess við mótun reglna um gjaldtöku á sjávarútvegi að ekki felist í henni hvati til að verðlagning á afla skekkist.

Ég vil einnig nota tækifærið og þakka Samkeppniseftirlitinu fyrir sína skýrslu sem er, eins og fram hefur komið, frá 2012 án þess að í sjálfu sér hafi verið gert mikið með hana.

Ég tel mjög mikilvægt í lok þessarar umræðu að við veltum því fyrir okkur hvernig við högum okkur í þessari mikilvægu atvinnugrein, að það sé tryggt að þar sitji allir sem mest við sama borðið og sambærilegt borð og að við tryggjum þannig þann fjölbreytileika sem ég tel mjög mikilvægt að sjávarútvegurinn byggi á. Í sjálfu sér vitum við ekki nákvæmlega hvað bíður okkar á næstu áratugum og við þurfum að vera undir það búin með því að hafa fjölbreyttan sjávarútveg á hverjum tíma.

Í lokin tel ég rétt að um leið og menn velta fyrir sér einhverjum breytingum þurfum við að hafa það í huga að sá árangur sem náðst hefur í sjávarútvegi á Íslandi og í efnahagslífinu, m.a. vegna sjávarútvegsins, hefur verið drifinn áfram af samkeppni hér heima og á mörkuðum erlendis, m.a. með því útgerðarformi sem er mest ráðandi í starfseminni hér á landi.