143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

kortaupplýsingar.

465. mál
[11:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég ætla að fylgja spurningunni eftir með því að biðja hann um að nefna mér einhverjar tölur en svo voru bara svo margar tölur í fyrra svari að ég held að ég geti varla beðið hann um að bæta um betur, bæði tölurnar um vektorgögnin og sóttar upplýsingar, gígabæti og terabæti og hvað veit ég.

Ég fagna því sérstaklega að fram kemur í svari hæstv. ráðherra að væntingar okkar á sínum tíma um að þetta væri til mikilla bóta og væri mjög örvandi fyrir íslenska framþróun í upplýsingatækni og þróun á því sviði hefðu allar saman gengið eftir.

Ég fagna því líka sérstaklega að hjá Landmælingum Íslands, sem er ríkisstofnun í fararbroddi á mjög mörgum sviðum þar sem er mikill metnaður annars vegar og mikil framsýni hins vegar, skuli þessar breytingar vera greindar sérstaklega frá degi til dags eða frá einum mánuði til annars. Sérstaklega gleður mig að heyra að áform séu um að gera könnun á næstunni um áhrif af þessu öllu saman.

Mig langar í lokin, vegna þess að hér erum við hæstv. ráðherra að ræða saman um kort og kortaupplýsingar, að spyrja hvort einhver áform séu uppi um að samkeyra og samnýta þær landupplýsingar sem eru fyrir hendi í nánast öllum stofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, hvort sem það er Landgræðsla, Skógrækt, Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Mývatn eða hvaða aðra stofnun ég á að nefna, þar sem um er að ræða gríðarlega mikilvægar upplýsingar á mjög mörgum mismunandi fræðasviðum, hvort einhver vinna sé í gangi til að samræma aðgengi að þeim upplýsingum og að gera þær læsilegar innbyrðis og keyra þær saman, bæði til að gera þær aðgengilegri, bæta upplýsingarnar, en ekki síður til þess að bæta nýtinguna á opinberu fé og þeirri þekkingu sem þar er til grundvallar.