143. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2014.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ágætu landsmenn. Það er vor í lofti. Alþingismenn eru að ljúka hér vetrar- og vorverkum og öll ölum við þá von í brjósti að fram undan sé fallegt gjöfult sumar með betri tíð og blóm í haga.

Fyrir ári voru alþingiskosningar. Þá var tekist á um stefnumál og þá sló Framsóknarflokkurinn eigið heimsmet í kosningaloforðum. Það hefur verið spaugilegt á þessu fyrsta ári nýrrar ríkisstjórnar að fylgjast með þegar stjórnarþingmenn, einstaka ráðherrar og aðstoðarmenn eru að viðurkenna smátt og smátt að ástandið í samfélaginu var betra fyrir ári en þeir héldu eða sögðu, að meira hafi verið gert á síðasta kjörtímabili en þeir gerðu sér grein fyrir, hvort sem var í endurreisn samfélagsins, lækkun atvinnuleysis, lækkun verðbólgu eða varðandi aðgerðir í þágu heimilanna. Það hefur líka verið viðurkennt að hlutirnir voru ekki eins auðveldir úrlausnar og ríkisstjórnin hafði lofað eða gert ráð fyrir.

Ég ætla því að fara hér yfir nokkur atriði sem ég vona að ríkisstjórnin hafi lært á síðasta ári og hverju barátta stjórnarandstöðu og umræðan hefur skilað. Um leið tjái ég mig um hvað við hefðum átt að gera öðruvísi.

Í fyrsta lagi veit ríkisstjórnin vonandi núna að góður þingstyrkur gefur ríkisstjórn ekki heimild til að keyra mál í gegn í óþökk stjórnarandstöðu eða gegn þjóðarvilja. Hún fær ekki leyfi til þess og við höfum náð árangri til að stoppa hana varðandi ESB-málið.

Í öðru lagi er óskynsamlegt og í reynd siðferðilega rangt að gefa kosningaloforð sem hvorki er mögulegt né skynsamlegt að standa við.

Í þriðja lagi þýðir lítið að tala um umhverfismál sem forgangsmál á sama tíma og maður pakkar umhverfisráðuneyti niður í skúffu, reynir að kasta náttúruverndarlögum og rjúfa sátt í rammaáætlun og jafnvel að beita því að lækka skatta á bensín og olíur til þess að ná fram betra umhverfi. Það tókst að hrinda þeim ákvörðunum.

Í fjórða lagi lofar maður ekki þjóðaratkvæðagreiðslu eða ítarlegri umræðu á Alþingi og hendir síðan inn tillögu um að hætta við aðildarumsókn og hætta umræðu. Það tókst að stöðva það líka.

Í fimmta lagi fer það ekki saman í fjárlagagerð að lýsa neyðarástandi í ríkisfjármálum um leið og menn stæra sig af því að skera niður skattheimtu upp á 25 milljarða. Þar er um að ræða auðlegðarskatt, veiðigjöld, lækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu eða gistingu og lækkun tekjuskatts til allra nema þeirra 10%, 20% sem lægstar tekjur hafa.

Í sjötta lagi er ekki hægt að efla heilsugæslu með niðurskurði eða bæta aðstöðu á þjóðarsjúkrahúsinu án nýrrar byggingar fyrir Landspítalann. Nýbyggingin er að komast í farveg, þökk sé öflugri stjórnarandstöðu og styrk úti í samfélaginu.

Í sjöunda lagi er ekki hægt að auka fjölbreytni í atvinnulífi og fjölga atvinnutækifærum með niðurskurði á rannsóknum og niðurskurði á styrkjum til nýsköpunar og horfa fram hjá skapandi greinum sem atvinnugrein.

Við höfum séð að eitt brýnasta verkefnið sem við ætlum að leysa núna á næstu mánuðum er að útvega húsnæði, að tryggja að fólk hafi þak yfir höfuðið og hafi jöfn tækifæri hvort sem það vill leigja eða kaupa og eignast húsnæði. Þar hefur Samfylkingin haft ítarlegar tillögur. Þar hefur Reykjavíkurborg riðið á vaðið og komið með ítarlegar tillögur. Sem betur fer er samhljómur við hæstv. ráðherra í flestum af þessum tillögum.

Það er mín von inn í sumarið að lærdómur ríkisstjórnarinnar á fyrsta ári verði sá að það þarf samstöðu í þessu þingi til að ná árangri. Það verður ekki sú sátt sem ríkisstjórnin hefur hingað til skilgreint sem sátt, þ.e. að styðja það sem ríkisstjórnin ber á borð. Það er sátt um að leita bestu lausnanna, ræða málin, finna nýjar lausnir og koma sem heilsteyptur hópur í þágu samfélagsins (Forseti hringir.) alls.

Ég vil í lokin fá leyfi til að þakka þingmönnum kærlega fyrir veturinn, samvinnu og mikla og góða samvinnu í nefndum við að leysa fjölmörg mál. Allir sem vinna hér á þingi vilja vinna samfélaginu vel og ég óska þingmönnum öllum gleðilegs sumars og ég óska þjóðinni allri hins sama.