143. löggjafarþing — 114. fundur,  15. maí 2014.

stækkun hvalfriðunarsvæðis á Faxaflóa.

[11:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Mikið óskaplega þykir mér leiðinlegt að hv. þingmaður skuli falla í þá klisjugildru sem hann gerði núna. Ég sagði aldrei að ég tæki ekki áskorun ferðaþjónustunnar um þetta eða önnur mál sem varða ferðaþjónustuna. Ég sagði það kannski ekki nógu skýrt, en ég skal segja það nógu skýrt fyrir hv. þingmann núna: Ég mun beita mér fyrir því að um þetta mál náist sátt. Ég mun beita mér fyrir því. Ég lýsti þeirri skoðun minni hér að ég held ágætlega að ég teldi að þessar tvær atvinnugreinar gætu í framtíðinni farið saman eins og þær hafa greinilega getað gert í fortíðinni, miðað við þann vöxt, sem þingmaðurinn rakti svo ágætlega í ræðu sinni, sem orðið hefur í hvalaskoðuninni.

Ég frábið mér, hæstv. forseti, að gripið sé til ómerkilegs málflutnings eins og hv. þingmaður gerði hér áðan. Ég stend með ferðaþjónustunni alla leið og ferðaþjónustan veit það. Ég hef unnið að fjölmörgum málum í góðu samstarfi (Forseti hringir.) við Samtök ferðaþjónustunnar, aðra aðila innan ferðaþjónustunnar, fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar og ég hef lagt mig fram um það. Þau vita það og ég er (Forseti hringir.) sannfærð um að þeir aðilar kunna heldur ekki að meta svona klisjukennda frasapólitík eins og hv. þingmaður viðhefur hér.