143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

600. mál
[14:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom að í ræðu minni áðan er hér um að ræða gríðarstórt og flókið mál. Við í minni hlutanum neitum því ekki að verkfallsaðgerðir flugmanna hafa mikil samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Við teljum þó ekki úr því skorið hvort þau teljist uppfylla þá brýnu almannahagsmuni sem þurfa að vera fyrir hendi til að réttlæta jafn alvarlegt inngrip og lög á verkfall eru, enda hefur ekki farið fram neitt sjálfstætt mat á því hversu miklar afleiðingar tiltölulega stuttar verkfallsaðgerðir hafa þegar haft.

Við gjöldum mjög varhuga við þessari stefnu, ekki síst í ljósi aðstæðna á vinnumarkaði þar sem við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af því, þó að skoða verði hvert tilfelli fyrir sig, hvert stefnir með allar þær deilur sem nú eru á borðum ríkissáttasemjara. Við teljum hér um að ræða verulegt inngrip í grundvallarmannréttindi og rétt fólks til að berjast fyrir kjörum sínum.