143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég leiðrétta hv. þingmann hvað varðar hvernig greiðslu sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu var hagað. Sérstaka vaxtaniðurgreiðslan var óháð tekjum og fór vissulega til tekjuhás fólks en í henni var eignaviðmiðunin. Ég er að leggja til sömu eignaviðmiðun. Hún olli því að fólk með miklar skuldlausar eignir fékk ekki vaxtaniðurgreiðsluna og tillaga mín felur í sér að leiðréttingin nái ekki heldur til slíks fólks.

Ég spyr þá hv. þingmann, ef hann er raunverulega þeirrar skoðunar að það sé óæskilegt að hátekjufólk njóti ívilnana af þessum toga: Ætlar hann ekki að styðja breytingartillöguna mína? Hún dregur úr ágöllum þessarar tillögu. Hún dregur úr þeim ágöllum, eins og tillaga ríkisstjórnarflokkanna lítur út núna, að fé verði flutt til auðmanna og til ríkasta fólksins í landinu. Í hversu ríkum mæli getur okkur greint á? Það vantar greiningar til að finna út hversu mikið, en við getum verið sammála um að það er verið að veita fé án tekju- og eignamarka. Ég spyr hv. þingmann: Af hverju ekki að stemma á að ósi? Ég er viss um að tillögurnar batna í augum landsmanna við það.

Hitt atriðið, enn og aftur, um 110%-leiðina: Hún fólst í því að verið var að afskrifa kröfur sem ekki var veð fyrir á viðkomandi eign. Það var verið að flýta uppgjöri krafna, draga úr yfirveðsetningu í kerfinu og þar af leiðandi er ekki hægt að bera hana á nokkurn hátt saman við það að senda peninga heim til fólks sem á miklar skuldlausar eignir og nóg af veðum fyrir þeim skuldum sem á húsum þeirra hvíla. Það er fullkomlega ósambærilegt og ósanngjarnt að bera það saman og það er algjörlega órökstutt enda samrýmdist 110%-leiðin almennum bankaendurmatsreglum. Þessi leið gerir það ekki.