143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum stórt og viðamikið mál sem snýr að fasteignalánum sem tillaga er um að verði færð niður samkvæmt formúlum sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur sett fram. Menn hafa verið að rifja upp liðinn tíma og sumir verið uppteknir af sjálfum sér. Ég ætla ekki að gerast eftirbátur þeirra og verða svolítið upptekinn af sjálfum mér og hverfa aftur til ársins 2008, októbermánaðar, þegar BSRB lagði til við þáverandi ríkisstjórn að vísitalan yrði tímabundið tekin úr sambandi til að forða lántakendum frá fyrirsjáanlegu verðbólguskoti. Þetta var í fyrstu viku októbermánaðar. Þessu var andmælt kröftuglega, ekki síst af hálfu Alþýðusambands Íslands og Samtökum atvinnulífsins. BSRB setti þessa tillögu fram á fundi sem haldinn var í ráðherrabústaðnum eftir að bankakreppan var hafin. Því miður var ekki fallist á þetta.

Eins og fram kemur í minnihlutaáliti hv. þm. Péturs H. Blöndals þá var þess skammt að bíða að verðbólgan æddi upp á við og var komin upp í 18,6% á ársgrundvelli í janúarmánuði 2009. (Gripið fram í.) Hærri varð hún ekki segir hann, en þessi upprifjun hans er inngangur í útlistun á því að vafasamt sé að tala yfirleitt um forsendubrest. Ýmsir hafa tekið undir það í málflutningi sínum hér. Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir, með leyfi forseta:

„Í janúar 2009 nam 12 mánaða verðbólga 18,6% en þá var toppi náð. Verðtryggð lán hækkuðu á þessum tíma um sama hlutfall. Í kjölfarið fóru margir að tala um forsendubrest þar sem skuldarar hefðu ekki mátt búast við svo mikilli verðbólgu. Á þessum tíma voru samt aðeins sex ár frá því að 12 mánaða verðbólga náði 9,4% (1. janúar 2002). Í heilan áratug, 1975–1984, fór 12 mánaða verðbólga ekki undir 30%. Í ljósi sögunnar er því undarlegt að tala um forsendubrest.“

Hæstv. forseti. Þetta er, verð ég að segja, harla yfirborðskennd sagnfræði. Inn í þessa mynd vantar aðra breytu í stöðunni sem ákvarðar kjör okkar sem lántakenda, lánveitenda, launafólks og samfélagsins í heild sinni. Þannig var það vissulega samkvæmt tölum sem ég hef einnig aflað mér að á því árabili sem hv. þingmaður vísar til var mikil verðbólga. Samkvæmt mínum uppflettingum nam verðbólgan að meðaltali yfir 40% 1974–1979 og 1980–1983 var hún í rúmum 60%, en — nú kemur hið mikla „en“ — á drjúgum hluta þessa tímabils var lánsfjármagnið óverðtryggt. Það var óverðtryggt og rýrnaði að meðaltali á árunum 1972–1983 um 4–10% á ári. Launin höfðu verið verðtryggð allt frá miðjum 7. áratugnum í þríhliða samningum sem gerðir voru milli aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekendasambandsins, og ríkisstjórnarinnar um miðjan áratuginn. Ég hygg að það hafi verið 1965. Þá var byrjað að vísitölubinda laun, en fjármagnið var áfram óverðtryggt. Það er þess vegna sem lög voru sett árið 1979, kennd við Ólaf Jóhannesson, formann Framsóknarflokksins, þar sem lánin voru vísitölubundin og útreikningum á vísitölu launanna jafnframt breytt, gerðar voru breytingar á reiknimódelinu. Þetta er náttúrlega samhengi sem þarf að horfa til þegar menn fara að tilgreina verðbólguskotin og hæðir verðbólgunnar. Það segir akkúrat ekki neitt ef ekki er horft til annarra þátta, t.d. launaþáttarins og hvernig launavísitalan hefur þróast.

Síðan gerist það í júnímánuði 1983, þegar ný ríkisstjórn er mynduð, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að hún stígur það óheillaspor sem er ein versta gjörð sem ég man eftir í seinni tíð að afnema í einu vetfangi launavísitöluna en láta lánavísitöluna óhreyfða. Þegar verst lét sumarið 1983 fór verðbólgan yfir 100% en launin stóðu í stað. Það er náttúrlega þetta sem skiptir máli, að horfa til samhengis launa og lána. Þess vegna er ekkert fráleitt að tala um forsendubrest þegar samdráttur verður í launum og kaupgetu almennt en lánskjörin hækka um tæp 20% eins og gerðist í byrjun árs 2009.

Það eru ákveðnir þættir sem þessi tímabil eiga sammerkt 1983 og svo 2008–2009. Orðræðan er svolítið svipuð. Þegar fólk fer að mótmæla og tala um misgengi launa og lána á þessum tíma þá er farið að ræða hvað eigi að gera fyrir fólkið, hvað eigi að gera fyrir lántakendur, hvernig ríkið eigi að stíga inn og koma þeim til aðstoðar. Við sem stóðum í mótmælum á þessum tíma höfnuðum alltaf þessari hugsun, við höfnuðum þessari nálgun. Við sögðum: Það er oftekið á okkur og við viljum fá því skilað til baka, það fjármagn sem er oftekið á að ganga til baka. Nákvæmlega þetta var uppi 2009. Hagsmunasamtök heimilanna tefldu fram sínum hugmyndum um að verðbólguskotinu sem þarna varð yrði skipt á milli lánveitandans og lántakandans, engum gefið neitt, en vegna þess að lánveitandinn hafði tekið of mikið til sín væri eðlilegt að þarna yrðu jöfn skipti. Menn féllust á að vextirnir héldu sér en að vísitöluhækkununum yrði skipt jafnt. Þetta var hugsunin. Undir þetta tók Framsóknarflokkurinn, undir þetta tók ég og ýmsir þingmenn, ég nefni Lilju Mósesdóttur sem dæmi. Þetta var mikið til umræðu á þessum tíma, 2008, 2009 og 2010.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var algerlega andvígur þessu. Hann lagði blátt bann við því að þessi leið yrði farin, almenn niðurfærsla á skuldum. Ég sat á fundum þar sem það var til umræðu. Það var á því tímabili þegar ég hafði sagt af mér ráðherraembætti og sat á slíkum fundum þar sem þetta var sérstaklega rætt með þingnefndum. Það var heldur ekki samstaða eða einhugur um það í ríkisstjórninni að knýja á um þetta.

Hvernig hefði þessu verið best komið við? Það hefði þurft að gera þetta með neyðarlögum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að eina færa leiðin til að taka á málinu var að gera það með neyðarlögum. Átti að gera það í upphafi 2008? Ég held að forsendur hafi ekki verið ljósar til að hægt hefði verið að gera það þá. Það þurfti að gera það ögn síðar, hefði mátt gera það jafnvel í blábyrjun árs 2009, en allar götur til 2010 tel ég að þetta hefði verið kostur, leið sem hefði mátt fara.

Sem sagt, fyrsti punkturinn sem ég vil nefna hér er að þegar talað er um forsendubrest, eins og gert hefur verið og menn leyfa sér að vefengja að hann hafi orðið, þá verða menn að horfa á alla myndina, alla þættina, launin, lánin og hvernig slík kjör þróast saman. (Gripið fram í: Og fasteignaverð.) — Já, og fasteignaverð. Það þarf að skoða þessa mynd alla saman. Þess vegna er ég kominn á þá skoðun, ekki fyrir svo ýkjalöngu en fyrir nokkru síðan, að vísitölubundin lán séu skaðræði og stórhættuleg. Þau eru stórhættuleg sem almenn regla.

Á þessum árum sem ég er að vísa til, á fyrri hluta 9. áratugarins, gagnrýndu menn ekki vísitölubundin lán einfaldlega vegna þess að þeir skynjuðu það að vísitölubundin lán voru auðveldari. Það var auðveldara að greiða af þeim á fyrri hluta lánstímans, en þegar upp var staðið urðu lánin dýrari. Þetta er vandi hins fátæka manns. Það var annað sem menn höfðu líka fyrir sjónum. Það var það sem ég var að vísa til, þ.e. áratugurinn þar sem spariféð brann upp 4–10% á hverju einasta ári. Ekki vildu menn það heldur. Þess vegna snerist þetta allt saman um að finna réttlátt jafnvægi þarna á milli.

Þetta er sem sagt staðan sem við erum í. Við höfum líka lengi búið við háa vexti á Íslandi. Vextir hafa verið háir og stundum hefur mönnum fundist alveg hræðilegt þegar þeir hafa verið lækkaðir eins og gert var 2004. Ýmsir telja að það hafi verið ein mesta ógæfa Íslands þegar átti að veita fólki aðgang að þeim kjörum Íbúðalánasjóðs sem þá átti að bjóða upp á, 90% lán sem svo voru kölluð, með aðeins lægri vexti en bankavexti. Það var á þeim tíma sem bankarnir kepptu við Íbúðalánasjóð, reyndu að koma honum út af markaði. Það var á árinu 2004 sem þeir tóku þá ákvörðun. Þá pumpuðu þeir inn á lánamarkaðinn 30 milljörðum í hverjum einasta mánuði á sama tíma og Íbúðalánasjóður, sem var sagður hafa sett fjármálakerfið hér á hausinn, setti 5 milljarða, þar af 2–3 milljarða til einstaklinga, inn á lánamarkaðinn. Þessi sömu gömlu öfl, sem ætla að reyna að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef, eru farin að ýfa sig upp aftur núna. Ég finn það alveg og sé það á orðræðunni í fjölmiðlum hvernig þetta er allt saman að teikna sig upp af gamalkunnum hætti og það er ömurlegt til þess að hugsa.

Þetta er sem sagt staðan sem við vorum í á þessum tíma þegar tillögur voru í samfélaginu um að færa niður lánin almennt óháð því hver eignastaða manna væri, óháð því hverjar tekjur manna væru, að lánveitandi og lántakandi deildu með sér verðbólguskotinu. Þetta var hugsunin.

Bankarnir leggjast algerlega gegn þessu. Hinir heilögu lífeyrissjóðir urðu svo heilagir að það varðaði við stjórnarskrárbrot að stíga minnstu skref í átt til stjórnvalda til að finna einhverjar lausnir, þar á meðal um lánsveðin. Ég ætla að koma að því síðar hvers vegna í ósköpunum hefur ekki verið tekið á lánsveðunum sem er eitt mesta réttlætismál og um leið ranglætismál að láta óhreyfð. Það liggja fyrir frumvörp í þinginu um að taka á lánsveðunum. Við skulum taka umræðu um þau áður en þessu öllu linnir. En bankarnir sem sagt og fjármálakerfið neitar þessu algerlega. Vegna þess að það var ekki vilji til að setja neyðarlög eða taka á þessu í lagasetningu og blátt bann var frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að slíkt yrði gert þá var eini kosturinn að ná því með samningum. Ef ríkisstjórnin hefði sett almenn lög sem ekki hefðu verið á grundvelli neyðarlaga tengt hruninu þá hefði allt orðið logandi í málaferlum hér. Það sögðu bankarnir, það sagði fjármálakerfið og það sögðu kannski skýrast lífeyrissjóðirnir, að þeir mundu fara í mál. Þá var spurningin hvernig stjórnvöldum hefði tekist að tengja þetta við hrunið og neyðarlög.

Mér fannst þessi tími vera liðinn haustið 2010. Þá fannst mér tengingin við hrunið og fjarlægðin í tíma vera orðin slík að erfitt væri að ráðast í málið á grundvelli neyðarlaga. Þar með vorum við dæmd til að ná annaðhvort samningum við fjármálakerfið eða fara aðrar leiðir og það gerðum við. Hvað var það sem við gerðum? Við vildum skattleggja fjármálastofnanir og ná í peninga frá þeim þannig og færa þá inn í vaxtabótakerfið og einkum sérstakar vaxtabætur sem voru stuðningur við þá sem höfðu orðið fyrir skakkaföllum. Þetta voru umtalsverðar fjárhæðir sem skipti einstaklinga og fjölskyldur mjög miklu máli á að fá í vasann, á því leikur ekki nokkur einasti vafi og enginn skal gera lítið úr því. En vandinn var sá að stuðningurinn var tímabundinn og hans gætti þann tíma sem viðkomandi fékk hann í vasann og var að standa straum af afborgunum þess árs. Hann hafði engin áhrif á sjálfan höfuðstólinn og um það snýst náttúrlega stóra málið, að reyna að ná höfuðstólnum niður.

Þess vegna hef ég tekið undir þá meginhugsun að við eigum að reyna að finna leiðir til að ná höfuðstól lána niður. Við ræddum það hér í gær og undanfarna daga að ná höfuðstólnum niður með séreignarsparnaði lífeyrissjóða. Þar tel ég vera komna leið sem er heppileg sem liður í þá veru að færa sparnað fólks inn í varanlegasta form sem til er, heimili þess. Það er varanlegasta sparnaðarformið sem til er, það er staðreynd. Það er mest öryggi í því fyrir okkur öll ef við erum með öryggi í húsnæði í ellinni, það er staðreynd. Ef við erum skuldug alla ævina er keppikeflið að reyna að taka þessar skuldir og færa þær eins nálægt okkur í tíma og hugsanlegt er að við ráðum við að greiða þær, eins snemma á starfsævinni og hægt er þannig að við verðum skuldlaus eftir. Það tel ég vera æskilegt. Í því felst mest öryggi. Ég hef skrifað upp á þá meginhugsun en hef jafnframt gert grein fyrir því að ég tel að margt annað skorti og þá erum við að horfa til annarra hópa, þeirra sem eru utan vinnumarkaðar og eru ekki í séreignarkerfinu. Það gengur náttúrlega ekki annað en tekið verði á þeirri mynd allri.

Bíðum nú við. Ríkisstjórnin segist vera að fara svipaða leið og við fórum varðandi vaxtabæturnar nema hún ætli að einbeita sér að höfuðstólnum. Menn eru byrjaðir að rífast um það í fjölmiðlum hversu mikið fari til einstaklinga, fyrirtækja, vel efnaðs fólks og fátækra. Í Ríkisútvarpinu var sagt fyrir fáeinum dögum að 230 fjölskyldur sem ættu rétt á leiðréttingu ættu að meðaltali 177 millj. kr. í hreina eign. Við þessu brást aðstoðarmaður forsætisráðherra og skrifaði texta. Ég ætla að lesa úr honum af því að það er innlegg í röksemdafærslu mína hér á eftir. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi kemur fram í sömu frétt að leiðréttingin nái til 64.500 heimila. […] Það þýðir að þessi 230 heimili sem verið er að skammast yfir eru 0,3% af heildarfjöldanum sem á rétt á aðgerðunum. Sem sagt: 97,7% þessara 64.500 heimila (þ.e. 63.016 heimili) eiga ekki 177 milljónir að meðaltali í hreina eign.“ — Þarna eru menn að karpa um þetta hátekjufólk og stóreignafólk.

„Í öðru lagi kemur fram í sömu frétt að 18.520 fjölskyldur eigi minna en 1 milljón í hreina eign og 18.530 fjölskyldur eigi á milli 1 og 10 milljónir í hreina eign. Semsagt: 37.050 fjölskyldur af þessum 64.500, þ.e. meira en helmingur þeirra (57%), eiga minna en 10 milljónir og þar af eiga 28,7% minna en 1 milljón.

Í þriðja lagi er sett sérstakt þak á leiðréttinguna, einmitt til þess að ekkert heimili geti fengið hærri niðurfellingar en 4 milljónir. Þetta er beinlínis gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tugmilljóna niðurfellingar til hátekjufólks.

Þessar einföldu staðreyndir sýna;

að tæplega tveir þriðju þeirra sem njóta leiðréttingarinnar eru fjölskyldur sem eiga minna en 10 milljónir,

að rúmur fjórðungur þeirra á minna en milljón,

að enginn getur fengið meira en 4 milljónir í niðurfellingar óháð tekjum og eignastöðu.“

En bíðum nú við. Hvers vegna á ekki að halda áfram þegar þessu sleppir og horfa á tekjur og eignastöðu? Þarna er verið að feta sig inn á hugsun sem snýr að einhverri réttlátri skiptingu. Það er verið að tala um 4 millj. kr. þak. Hvers vegna á ekki að horfa til eignastöðu fólks? Ástæðan fyrir því að ég segi að það sé mikilvægt að gera það er sú að þegar við færum okkur frá upphaflegri hugmyndafræði, upphaflegri hugsun um að lánveitandi og lántakandi deili með sér skotinu, förum síðan óbeina leið í gegnum ríkissjóð þá vakna önnur sjónarmið. Við skulum ekki gleyma því að þegar við berum saman 110%-leiðina t.d. við þessa leið þá er 110%-leiðin aðkoma fjármálastofnana. Þær fóru þá leið og að uppistöðu til voru fjármálastofnanirnar að afskrifa lán sem þær neyddust til að gera.

Stefán Ólafsson prófessor skrifar ágæta grein um þetta þar sem hann tekur undir þá meginhugsun og mikilvægi þess að færa niður höfuðstól fasteignalána. Hann telur það vera afar mikilvægan þátt og vekur athygli á því að það sé einungis búið að greiða niður 22% af skuldum heimilanna á móti 63% af skuldum fyrirtækja. Hann segir: Af hverju á ekki að ganga lengra gagnvart einstaklingunum og heimilunum? Ég er alveg sammála þessu en við verðum að horfa á þá mynd sem skiptir öllu máli. Það er munur á því að banki afskrifi skuld hjá fyrirtæki sem er komið á hausinn eða er við það að fara á hausinn eða skuldunautum sem eru skuldsettir og geta ekki borgað og skuldir þeirra eru þess vegna lækkaðar og að fara með skuldaniðurfellingu í gegnum ríkissjóð, jafnvel þótt menn nái því í gegnum skatt frá þessum aðilum. Ég fagna að reynt verður að seilast í vasa hjá þeim, þ.e. þrotabúunum og fjármálafyrirtækjunum. Það er gott og ég er einn af þeim sem kalla þá — hvað eru þeir kallaðir? (ÁÞS: Hrægammar.) — hrægamma, ég geri það, það sem á ensku er kallað „vulture“-fjárfestar, sem eru komnir með uppistöðu í eignarhaldinu, eru kröfuhafarnir að uppistöðu til. Það má vel kalla þá því nafni. Það er staðreynd og ég fagna því að það skuli reynt að ná í peninga frá þeim og færa þá yfir til lántakenda með þessum hætti. Mér finnst það gott, mér finnst það fín hugsun, mér finnst það góð hugsun.

Það sem skortir er samfélagslegur réttlætisvinkill. Eins og aðstoðarmaðurinn segir í texta sínum er mikilvægt að binda sig við einhver útgreiðslumörk, að þau séu 4 milljónir. Af hverju ekki eignamörk líka? Af hverju ekki að segja að einstaklingur sem á hreina eign sem nemur einhverjum tugum milljóna eigi ekki að fá þessar greiðslur? Hvers vegna ekki? Ef maður er með hreina eign í íbúð eða húsi, hvers vegna á þá að láta hann fá þessa peninga? Ég skil það ekki.

Síðan finnst mér önnur „feil“-hugsun í þessari aðferðafræði. Hún er þessi: Réttilega er því haldið fram að mikilvægast sé að færa niður höfuðstólinn og réttilega er sagt að vaxtabæturnar sé tímabundin aðgerð, þ.e. plástur á meinið það ár sem viðkomandi fær vaxtabætur. En hvers vegna er verið að draga frá stuðninginn sem hefur verið veittur með vaxtabótum? Hvers vegna er litið á hann sem ígildi þess að færa niður höfuðstól? Það er það sem er verið að gera. Það er verið að rugla saman tvenns konar aðferðafræði. Þetta finnst mér ranglátt. Það er ranglátt að draga sérstöku vaxtabæturnar frá og segja: Þú ert búinn að fá vaxtabætur, þú átt ekki að fá lækkun á höfuðstól. Mér finnst þetta rangt, mér finnst þetta röng hugsun.

Hv. þingmaður, ég tala eins lengi og mig lystir. Er það ekki alveg skýrt? (Gripið fram í.) Já, gott er það. Ég hef engan tíma verið hérna.

Mér finnst að það þurfi að laga þetta í frumvarpinu. Það þarf að setja samfélagslegan réttlætisvíxil á þetta. Þetta er það sem við höfum rætt í þingflokki okkar, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það er mikilvægt að horfa til þess að eignamikið fólk fái ekki þessar úrbætur. Enda þótt peningarnir komi frá hrægömmum og fjármálastofnunum sem hafa oftekið af þessu fólki er eðlilegt að hyggja að þessu.

Síðan að lokum, hæstv. forseti. Lánsveð eru einn erfiðasti þátturinn sem við höfum verið að glíma við í allri kreppunni. Lánsveðin eru þannig hugsuð að einstaklingur sem fær lán hjá lífeyrissjóði og er búinn að fara upp í þær heimildir sem hann hefur þar — lífeyrissjóðirnir hafa verið mjög passasamir að leyfa fólki ekki að taka of há lán, fara of hátt í veðsetningu — fer þá til mömmu og pabba, systkina eða vina og fær lánsveð í íbúðinni þeirra. Eftir sem áður er lánið algerlega á ábyrgð viðkomandi einstaklings. Hann borgar af láninu enda þótt veðsetningin sé annars staðar. Er gott fyrirkomulag að fá lánað veð hjá öðrum? Nei, það er ekki gott, en þannig hefur það verið. Þannig hefur það gengið áfallalaust í ár og áratugi. Þegar við höfum verið sæmilega kreppufrí hefur það gengið ágætlega. Í kreppunni gerði það það ekki. Þá byrjar martröðin hjá fólki sem getur illa borgað af lánum sínum og sér það fyrir sér að foreldrar, systkini eða vinir missi íbúð sína fyrir vikið. Þetta er óskaplega sárt. Þetta er miklu erfiðara og sárara en að tapa eigin íbúð. Það var mikið reynt til að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina á síðasta kjörtímabili og margir komu að þeirri vinnu, margir ráðherrar, fjórir ráðherrar komu eiginlega að þeirri vinnu. Lífeyrissjóðirnir voru mjög staðir hvað þetta snertir, mjög óábyrgir, félagslega óábyrgir, en við náðum samkomulagi. Undir lok kjörtímabilsins náðum við samkomulagi. Við kláruðum málið. Það var búin til ákveðin formúla sem átti að framfylgja.

Hvað gerist svo? Við lögðum fram frumvarp, tveir fyrrverandi ráðherrar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, um að þetta yrði lögfest, aðkoma ríkisins að lánsveðunum yrði lögfest. Ekki orð um það meir. Mér finnst að við getum ekki horfið frá þessari umræðu fyrr en við heyrum hvað ríkisstjórnin ætlar að gera varðandi lánsveðin. Þeir sem eru skuldsettir með lánsveð munu einhverjir njóta góðs af þessum ráðstöfunum, ég efast ekki um það, en það er ekki nóg.

Síðan er hitt, og ég hef ekki farið inn á þær brautir í málflutningi mínum, það eru margir aðrir þættir í þessu máli þar sem á skortir. Það er búið að tala hér um Búseta, hvers það fólk eigi að gjalda, og ýmsa aðra. Ég vil segja það undir lok máls míns að þó að það skipti fólk miklu máli að fá bót sinna mála á þann hátt sem hér er verið að leggja til þá eiga svona breytingar að gerast hægar, tel ég, kerfisbreytingar sem eru grundvallandi, t.d. varðandi séreignarsparnaðinn. En þó að ég hafi þessar ríku skoðanir á því máli eru aðrir með önnur sjónarmið. Við höfum heyrt lífeyrissjóðina mótmæla og við höfum heyrt fólk mótmæla annars staðar í samfélaginu og við eigum að hlusta á það. Ég vísa til þess sem er að gerast núna með húsnæðismálin. Það eru komnar fram tillögur. Síðan líður sumarið og haustið og við fáum væntanlega frumvarp þá, en við ræðum málið, það gerjast í þjóðfélagsumræðunni. Þetta er gott og þetta á að gerast varðandi allar kerfisbreytingar

Hæstv. forseti. Það sem mér finnst skipta máli þegar verið er að ræða þessi mál er að horfa heildstætt á þau. Það dugar ekki að vísa, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerir, í verðbólguskot fyrri ára og horfa ekki til þess hvernig laun þróast og hvernig lánin þróast. Hér hefur einnig verið bent á mikilvægi fasteignaþáttarins, verðlags þar. Það verður að skoða þetta allt í einni heildstæðri mynd, að sjálfsögðu. Ég vil láta þess getið, svo að ég gleymi því alveg örugglega ekki, að þegar tillaga var lögð fram á sínum tíma, um að vísitalan yrði tekin tímabundið úr sambandi, þá var það náttúrlega á báðum endum. Þetta þýddi rýrnun hjá lífeyrisþegum vegna þess að ef vísitalan er tekin úr sambandi þarf hugsanlega að rýra hana hinum megin, þ.e. hjá þeim sem eru með verðtryggðan lífeyri.

Varðandi verðtrygginguna vil ég líka minna á að mér hefur stundum fundist það gleymast í umræðu um hana að ýmsar leiðir eru til að verðtryggja fjármuni. Það er hægt að gera á vélrænan hátt, t.d. með vísitöluformúlu, en það er líka hægt að gera það með breytilegum vöxtum. Ég tel að það sé miklu ráðlegra að fara inn á þær brautir þannig að þegar kreppa verður í þjóðfélaginu sé hægt að rýra allar stærðir, þar með fjármagnið. Þá reynir á hver stjórnmálaviðhorfin eru, hvort menn vilja hlífa hinum efnaminni eða hinum efnameiri. Þar skiptumst við í flokka eftir því hvernig við viljum bera okkur að við slíkt. Það er pólitíkin, hvaða stærðir eigi að rýrna og hverjar ekki, en við eigum ekki að þurfa að standa fyrir því að ein stærð sé alltaf varin, þ.e. fjármagnið. Það er kominn tími til að huga að því á annan hátt.

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti. Mitt innlegg í þessa umræðu er að mér finnst að sumu leyti rangt þegar verið er að tala um þessa aðstoð alla við fólk sem hefur tekið lán og það hefur verið tekið of mikið af því. Það er grunnurinn að baki þeirri hugsun sem var í umræðunum 1983 og árunum þar á eftir og hefur verið núna, en þegar peningarnir eru teknir í gegnum ríkissjóð eins og hér er þá gengur ekki annað en að huga að hinum félagslegu þáttum. Það eru þær áherslur sem við höfum rætt í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.