143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

561. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga sem varðar það að þeir sem hafa meistararéttindi í iðngrein eða öðru fagnámi sem ráðherra viðurkennir og nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, auk 60 eininga til náms í kennslu- og uppeldisfræði, bætist við þá upptalningu sem lögin, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, fjalla um. Hér er um að ræða þá aðila sem eru með skip- og vélstjórnarréttindi en hafa nú ekki færi á því að afla sér réttinda í kennslu- og uppeldisfræði. Í raun er verið að bæta því inn í þannig að þessir aðilar geti aflað sér slíkra kennsluréttinda.

Nefndin flytur þetta öll í sameiningu og við vonumst til þess að málið fái brautargengi hér í þinginu, enda er það mjög mikilvægt.