143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við meðal annars atkvæði um hlutdeildarsetningu á rækju. Breytingin sem var gerð var skipting á milli þeirra sem höfðu verið að veiða áður en rækjuveiðar voru gefnar frjálsar 2010 og þeirra sem á eftir komu. Breytingin átti að vera sú að þeir sem voru fyrir hefðu fengið 70% en þeir sem höfðu veitt eftir að rækjuveiðar voru gefnar frjálsar áttu að fá 30%. Ég er mjög ánægð að það náðist að lenda málinu þannig að þessu var þess í stað skipt til helminga. Það skiptir gífurlega miklu máli fyrir atvinnuvegi í rækjuverksmiðjum vestur á Ísafirði og fleiri stöðum. Fjöldi starfa var í húfi og ég vona að þetta hafi áhrif til góðs svo að það dragi úr uppsögnum á fólki sem byrjað var að segja upp bæði í útgerð og vinnslu. Þetta skiptir því miklu máli.

Annað í þessu frumvarpi er að hlutdeildarsetja byggðaaðgerðir potta í 5,3% í stað 4,8%. Ég tel það vera af hinu góða en tel þó rétt að það vinnist vel (Forseti hringir.) hvernig þessi skipting verður svo að það verði ekki alfarið á hendi ráðherra nema hann leggi fram þingsályktunartillögu sem verður þá rædd hér á þingi.