143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

tekjuskattur.

15. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu frá efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum og efnisinnihald þessara tekjuskattslagabreytinga er svonefnd þunn eiginfjármögnun. Flutningsmenn frumvarpsins sem nefndarálitið fellur að voru hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og sá sem hér talar.

Nefndin fjallaði nokkuð um þetta mál, tók það fyrir á nokkrum fundum, fékk á sinn fund gesti frá ríkisskattstjóraembættinu, Alexander Eðvarðsson frá KPMG endurskoðunarskrifstofu. Einnig kom Helgi Seljan Jóhannsson fréttamaður, sem fjallað hefur um þessi mál eða mál tengd þessu í Kastljóssþáttum, á fund nefndarinnar og veitti gagnlegar upplýsingar sem og Ragnar Guðmundsson frá Norðuráli og Bjarnfreður Ólafsson frá endurskoðunarskrifstofunni LOGOS. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra, KPMG og Viðskiptaráði Íslands.

Reglum um þunna eiginfjármögnun sem rætt hefur verið um og staðið hefur til að setja inn í íslensk skattalög nú um nokkurra ára skeið er ætlað að afstýra því að tengdir aðilar, svo sem móður- og dótturfélög, sem eru eignalega tengdir og tengdir í skilningi skattalaga flytji tekjur eða gjöld á milli fyrirtækja og landa í þeim tilgangi að skattstofn myndist þar sem skattlagning hans er sem hagstæðust eða jafnvel engin. Þetta hefur oft og tíðum þær afleiðingar að ríki verða af skatttekjum af umsvifum sem þeim með réttu bæri samkvæmt hefðbundnum samskiptum ríkja um skattskil þegar rekstur og starfsemi fyrirtækja eru í fleiri en einu landi. Hin almenna regla er svo að til skattlagningar skal koma í hverju landi fyrir sig sú starfsemi sem þar er með eðlilegum hætti og mönnum á ekki að vera kleift að flytja arð af raunverulegri atvinnustarfsemi fyrirtækja sem skráð eru í einu landi yfir til annarra nema í samræmi við lög og reglur þar um og almennt talað eiga þá ríkin að deila með sér skatttekjum af starfseminni í sanngjörnu hlutfalli við umsvifin eins og þau eru á hvorum stað.

Skortur á því að tekið sé á reglum um eiginfjármögnun fyrirtækjanna þegar þau eru innan samstæðu og í mismunandi löndum skekkir líka samkeppnisstöðu við önnur fyrirtæki sem starfa innan sömu landamæra, enda var það svo að umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt mjög jákvæðir varðandi markmið frumvarpsins og sammála því að skynsamlegt sé að stefna að því að setja hér í skattaréttinn reglur um þunna eiginfjármögnun.

Hins vegar voru fyrir nefndinni gerðar ýmsar lagatæknilegar athugasemdir við frumvarpið og það verður að viðurkennast að það er nokkuð vandasamt og flókið að skilgreina ýmis hugtök sem nota þarf við skattframkvæmdina, svo sem eins og að skilgreina vaxtahugtakið í þessum skilningi, og það þurfa að vera skýr og framkvæmanleg ákvæði sem hægt er að beita.

Það er, held ég, mat nefndarinnar að markmið frumvarpsins sé jákvætt. Hins vegar er þörf á því að skoða þetta vel áður en Alþingi ræðst í að lögtaka breytingar af þessu tagi. Efnahags- og viðskiptanefnd hafði takmarkaðan tíma, einkum eftir að leið á veturinn og mörg stór mál komu þar til umfjöllunar, til að leggjast sjálf í þá vinnu. Gagnlegt er að vísu að í tíð fyrri ríkisstjórnar var skipuð nefnd sem skilað ágætisáliti sem má styðjast mjög við, enda þetta frumvarp að hluta til byggt á því sem þar kom fram.

Það er því niðurstaða nefndarinnar í ljósi þessara aðstæðna að leggja til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu, þó þannig að það verði tekið til skoðunar og vinnslu nú í vor og sumar og verði lagt fyrir Alþingi að nýju í betrumbættri útgáfu, annaðhvort sem stjórnarfrumvarp kjósi ráðherra að leggja það fram og flytja eða þá sem frumvarpsdrög eða breytingartillögur við það frumvarp sem hér er til umræðu, sem yrði þá sent efnahags- og viðskiptanefnd fyrir næsta haustþing því að nefndin er sjálf reiðubúin til að leggja frekari vinnu í málið og eftir atvikum flytja það ef það yrði niðurstaðan. Það er í því ljósi og með þeim lögskýringum sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar með jákvæðri umsögn af þessu tagi og til að tryggja frekari og vandaðri vinnu við þetta mál með það að sjálfsögðu í huga að við getum sem fyrst tekið nauðsynlegar umbætur upp í okkar rétt hvað þetta varðar. Það er einkum mikilvægt til framtíðar lítið því að í vissum tilvikum kunna slíkar reglur að takmarkast af fyrirliggjandi fjárfestingarsamningum fyrirtækja sem þegar eru fyrir í landinu og ekki að öllu leyti unnt að koma þeim strax til framkvæmda, jafnvel þó að um almennar breytingar á skattarétti sé að ræða, en það er að sjálfsögðu engin ástæða til þess að fresta því að gera þessar skynsamlegu úrbætur í skattaréttinum gagnvart fjárfestingum á komandi árum. Þetta hafa flest ríki í kringum okkur löngu gert, beita reglum um eiginfjármögnun fyrirtækja til að hindra það að þau geti byggst upp fyrst og fremst á grundvelli lántaka frá erlendum móðurfélögum eða erlendum systurfélögum innan samstæðu og flutt þannig arð sinn úr landi, fyrst og fremst sem vaxtagreiðslur af miklum og þungum lánum sem fyrirtækið notar þá arð af rekstrinum til að borga af. Að sjálfsögðu á það að vera markmið okkar og metnaðarmál að tryggja að eðlileg skattskil af allri slíkri starfsemi falli til hér á landi.

Hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Vilhjálmur Bjarnason voru fjarverandi afgreiðslu málsins en standa engu að síður að nefndarálitinu og rita undir það samkvæmt 4. mgr. 18. gr. um starfsreglur fastanefnda Alþingis, en Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðsluna.

Undir þetta rita ásamt þeim sem hér talar hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Vilhjálmur Bjarnason og Líneik Anna Sævarsdóttir.