143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa mikilli ánægju með það að við skulum vera að greiða atkvæði um þetta mál. Mig langar að rifja upp að í lok síðasta árs sagði einn hv. þingmaður sem nú er í stjórnarandstöðu en var hæstv. ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að hvað Samfylkinguna varðaði hefði það verið gríðarleg mistök hjá fyrrverandi ríkisstjórn að hafa ekki ráðist í almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna. Það hefði orðið fyrri ríkisstjórn að falli. Það hefði hins vegar verið andstaða við það meðal forustumanna fyrrverandi ríkisstjórnar. Í þessum sömu viðtölum kom reyndar fram að nokkrir þingmenn innan Samfylkingarinnar og eins þingmenn innan Vinstri grænna, þar með talinn þáverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hefðu viljað ráðast í slíkar leiðréttingar. Það er því einstaklega dapurt að sjá hér þetta sama fólk berjast gegn þessum leiðréttingum.

Ég vil (Forseti hringir.) óska íslenskri þjóð til hamingju með það að við skulum vera að (Forseti hringir.) ráðast nú í þessar skuldaleiðréttingar (Forseti hringir.) og það er merkilegt að það skuli vera eftir (Forseti hringir.) að við vorum með svokallaða velferðarstjórn hér í landinu sem þurfi (Forseti hringir.) að ráðast í það. Til hamingju Íslendingar með þessar skuldaleiðréttingar.