143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um þingsköpin. Það er alveg ljóst að það var dálítið sérkennilegt þegar maður fékk fréttir af því í fjölmiðlum að jafnvel stæði til að kalla saman þing til að setja lög í þessari kjaradeilu. Það var gjarnan orðað þannig af hálfu fjölmiðla, þó að það sé kannski við fjölmiðlana að sakast í því efni, að innanríkisráðherra hygðist kalla þingið saman. Það sýnir hvað menn eru, að minnsta kosti á sumum bæjum, lítið vel að sér um það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Það er að sjálfsögðu ekki innanríkisráðherra sem kallar saman þing.

Það er rétt sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir segir, gert er ráð fyrir því í þingsköpum að forseti hafi samráð við þingflokksformenn. Þegar svona afbrigðilega stendur á er dálítið undarlegt að það skuli þá ekki hafa verið gert, að kalla saman fund forseta og þingflokksformanna til að ræða um þennan þingfund og hvernig hann yrði. Fram komu óskir um óundirbúinn fyrirspurnatíma sem hefði verið hægt að gera með einum hálftíma til að beina fyrirspurnum til einstakra ráðherra en það komu heldur ekki svör við þeirri bón, hvað þá meira. Mér er alveg hulin ráðgáta af hverju forseti kýs að hafa þetta háttalag á vegna þess að það er alger óþarfi og hleypir frekar illu blóði í umræðuna en hitt.