143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við höfum ekki enn fengið svar um það. Það dugar ekki að hæstv. forseti leggi mat á lagagreinar í þingskapalögum með þeim hætti sem hann greinir þinginu frá núna. Ef það er mat hans að ekki þurfi að fara að 86. gr. og 10. gr. þarf hann að bera það mat undir þingflokksformennina í einhverju samtali. Það þarf að vera sameiginlegur skilningur að 86. gr. eigi ekki við þegar um er að ræða þinghald af því tagi sem við tökum hér þátt í.

Ég er sammála því sem hæstv. forseti segir, það hefur verið gott samstarf við forseta og gott samstarf við þingflokksformenn, en mér finnst vondur sá tónn sem kemur fram í máli hæstv. forseta og verst af öllu finnst mér að forseti telji samráð hæstv. innanríkisráðherra við einstaka fulltrúa eða forustumenn í stjórnarandstöðunni duga til að (Forseti hringir.) festa í sessi ákvörðun um það með hvaða hætti þinghaldið eigi að vera. (Forseti hringir.) Hæstv. innanríkisráðherra hefur enga stöðu eða umboð til að hlutast til um þinghald eða ákveða það.