144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Öll þau lönd sem við viljum bera okkur saman við eiga eitt sameiginlegt. Þar ríkir stöðugleiki, efnahagslegur stöðugleiki, sem er forsenda fyrir bættum lífskjörum.

Til að koma á stöðugleika þarf aga og ráðdeild í ríkisfjármálin. Til að koma á aga og festu í opinber fjármál þurfum við breytt vinnubrögð. Í þeim löndum þar sem stöðugleiki ríkir er samstaða milli allra stjórnmálaafla um aga. En er það mögulegt hér á landi? Er mögulegt fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum, í stjórn og stjórnarandstöðu, embættismenn, forstöðumenn opinberra stofnana, aðila vinnumarkaðarins, að ná samstöðu um þetta grundvallarmál? Svarið er: Við eigum ekki annan valkost. Við verðum að sameinast um agann, við verðum að sameinast um breytt vinnubrögð hér á landi. Það er grundvallaratriði ef við ætlum að ná því marki sem við erum öll sammála um, að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar.

Við Íslendingar höfum sýnt að þegar mikið liggur við getum við sameinast um stór mál. Við Íslendingar værum ekki sjálfstæð þjóð ef um það hefði ekki náðst góð samstaða. Við Íslendingar hefðum ekki haft sigur í hörðum milliríkjadeilum við miklu fjölmennari þjóðir ef við hefðum ekki staðið saman. Það er stutt að sækja í fyrirmyndirnar. Til dæmis ákváðu frændur vorir Svíar að sameinast um aga í ríkisfjármálum eftir bankahrun sitt fyrir nokkrum áratugum. Þar var samstaða allra stjórnmálaafla og embættismanna um aga og ráðdeild. Þeir breyttu vinnubrögðum og hafa uppskorið ríkulega.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað í þágu sjúklinga og lífeyrisþega. Það er ekki einungis í orði heldur líka á borði. Hver sem vill getur borið fjárlög þessa árs saman við síðustu fjárlög. Niðurstaðan er að 10.000 millj. kr. var bætt í heilbrigðisþjónustuna. Langstærsti hlutinn, 4,6 milljarðar, fór til Landspítalans. Hækkun til lífeyristrygginga nam tæplega 8.000 milljónum. Lífeyristryggingar fara til eldri borgara og öryrkja.

Þessar tölur sýna að þeir sem tala um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi forgangsraðað í þágu þeirra sem ríkastir eru að tala gegn betri vitund.

Einföldun skattkerfisins og breikkun skattstofna hefur oft verið til umræðu en lítið um efndir. Nú eru stigin skref til að lækka gjöld á allan almenning. Það er sérstakt fagnaðarefni að afnema vörugjöld. Þar er á ferðinni úreltur og flókinn skattur sem leggst á alla þá sem versla hér á landi. Fleiri skattbreytingar eru í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er mikilvægt að líta á þær í heildarsamhengi. Það verður að líta til allra útgjaldaflokka. OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa bent á að lægri virðisaukaskattur á ýmsar vörur og þjónustu, þar með talið matvæli, þjóna illa þeim tilgangi að vera stuðningur við tekjulægri fjölskyldur og jafna þannig tekjuskiptingu samfélagsins. Það kemur því ekki á óvart að áhrif hækkunar barnabóta á ráðstöfunartekjur vega tólf sinnum meira en áhrif breyttra neysluskatta.

Kæru landsmenn. Heildaráhrif skattbreytinganna eru jákvæð fyrir ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa — ekki síst fyrir þá tekjulægstu. Þetta kemur líka millistéttinni til góða sem er afskaplega mikilvægt vegna þess, góðir landsmenn, að það er millistéttin sem fjármagnar velferðarþjóðfélagið.