144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. 11 milljarða skattahækkun á lífsnauðsynjar fyrir almenning. Og, hæstv. fjármálaráðherra, ekki gefa mér neitt um mótvægisaðgerðir í Lexusum eða Landkrúserum, gosdrykkjum eða gírkössum. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Fyrir láglaunafólk í landinu eru þetta alvarleg tíðindi.

Það eru kaldar kveðjur sem hæstv. fjármálaráðherra sendir hér þingmönnum Framsóknarflokksins sem varað hafa við þessu. Hann segir að það sé ekkert að marka þá, þeir skilji bara ekki þegar þeir sjái skattalækkun.

En ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er meiri hluti hér í þinginu fyrir þessum tillögum? Hefur hann að engu athugasemdir fjölmargra þingmanna Framsóknarflokksins? Er það rétt hjá formanni þingflokks Framsóknarflokksins að þetta sé bara til prufu, að athuga hvernig viðbrögðin séu? Eða er meiri hluti hér í þinginu fyrir þessum stórkostlegu skattahækkunum á lífsnauðsynjar fyrir almenning? Ég trúi því ekki og ég vona sannarlega að það fari um þetta fjárlagafrumvarp eins og hið fyrra hjá fjármálaráðherranum, að það verði tekið ærlega í gegn hér í þinginu og breytt (Forseti hringir.) í verulegum atriðum því að þetta frumvarp er ósanngjarnt, virðulegur forseti.