144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að taka undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt um þennan matarskatt, þ.e. virðisaukaskatt á mat. Ég er svo undarlegur að eðlisfari að mér finnst það bara ekki siðferðislega í lagi að skattleggja mat yfir höfuð, hvort sem það er 7% eða 12% eða 1% eða 0, 0001%. Það er bara ein skattprósenta sem mér finnst ásættanleg þegar kemur að mat, það er 0% og ekkert annað. Þannig er ég, kannski er ég bara bilaður.

Mig langaði að benda hæstv. ráðherra á það, þegar hann telur til aðrar nauðsynjavörur, eða það sem við köllum nauðsynjavörur eða annað það sem er mikilvægt í lífinu, sem hæstv. ráðherra hyggst lækka skatt á, að matur er ekki valkvæður. Matur er mikilvægari en rafmagn og lestrarhæfileikar og húsnæði og föt. Maður lifir nakinn, maður lifir án húsnæðis, maður lifir án lestrarkunnáttu. Maður lifir ekki án matar, maður deyr án matar. (Forseti hringir.)

Mig langaði því að spyrja hæstv. ráðherra: Fyrir utan súrefni, vatn og mat, getur hæstv. ráðherra nefnt mér einn hlut í lífinu sem er mikilvægari en það?