144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um útvarpsgjaldið. Það var raunar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem tók þá mörkun af. Það var skiljanleg ráðstöfun á þeim tíma því að það var gert haustið 2008 í kringum fjárlögin sem þá voru samin. Það má rökstyðja það að þegar allar stofnanir samfélagsins taka á sig slíkan skell sem ljóst var að þá yrði að það sama ætti að gilda um Ríkisútvarpið. Það breytir því ekki að þegar við erum komin á þann stað að hér erum við að ganga frá hallalausum fjárlögum þá er afar einkennilegt að framlengja það fyrirkomulag að hafa þennan tekjuskatt ekki markaðan því að þessar stofnanir eru, eins og ég nefndi áðan, almennt taldar njóta ákveðinnar sérstöðu.

Að vísu vorum við ekkert alveg sammála um það hér öll þegar við ræddum þessi mál en þó var það svo að þessi lög voru samþykkt með atkvæðum allra nema hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma, þ.e. að það væri eðlilegt að Ríkisútvarpið hefði þennan tekjustofn, gæti þar með haft ákveðinn fyrirsjáanleika í sínum fjárveitingum, gert langtímaáætlanir og væri ekki eins háð fjárveitingavaldinu á sínum tíma.

Ég legg því mikla áherslu á það, eins og ég gerði hér síðast þegar við ræddum fjárlögin, að það er röng stefnumótun að hafa þetta áfram ómarkað. Þetta er röng stefnumótun, hún byggir ekki á neinum gögnum, hún er ekki í neinum takti við það sem gerist neins staðar annars staðar.

Síðan tel ég líka að miðað við stöðu Ríkisútvarpsins sé mjög óvarlegt að ætla sér að lækka útvarpsgjaldið. Það á auðvitað að renna beint til þess sem við skattgreiðendur erum að greiða í. Við erum að greiða þetta útvarpsgjald. Við ætlumst til þess að það renni í það sem því er ætlað.

Hvað varðar stefnumótun í vísindamálum ætla ég bara að taka undir með hæstv. ráðherra. Það er mjög mikilvægt skref að við séum að ná upp í 3%. Erlendar fjárfestingar sem hér hafa verið eftir hrun hafa til að mynda verið í nýsköpunarfyrirtækjum tengdum lífvísindum sem skapar tvímælalaust sóknarfæri fyrir íslenskt samfélag. Þá verðum við líka að reikna með því að ríkisstjórnir, þó að þær komi og fari, (Forseti hringir.) fari ekki alltaf í slíkar breytingar á fjármögnun þessara sjóða.