144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar bara að inna hv. þingmann eftir persónulegri afstöðu sinni til málaflokksins, þ.e. til þjóðkirkjunnar, og hvort henni sjálfri þyki eðlilegt að hér sé ríkiskirkja. Ég veit að ríkiskirkjan er varin í stjórnarskrá, í 62. gr. Ég veit líka að í 2. mgr. sömu greinar stendur að því megi breyta með lögum. Þannig að það er gert ráð fyrir því að þessu verði hugsanlega breytt einhvern tímann, ólíkt öðrum greinum stjórnarskrárinnar, sem er reyndar athyglisvert út af fyrir sig og alveg þess virði að tala um einhvern tíma, kannski við betra tækifæri.

Ég nefndi ekki í andsvari mínu neitt um bótasvindl, en fyrst hv. þingmaður vill fara í þá átt langar mig kannski að bæta annarri spurningu við þá fyrri sem er um ríkiskirkjuna, þ.e. hvort hv. þingmanni finnist persónulega að hér eigi að vera ríkiskirkja. Hvað varðar þessi bótasvindl og kostnaðinn sem þau valda — af mínum samtölum við öryrkja er alltaf sjálfkrafa komið fram við þá eins og glæpamenn. Þannig upplifa þeir það alla vega. Mér hefur fundist þetta vera svolítið röng forgangsröðun vegna þess að á sínum tíma urðu skerðingar og öryrkjar voru augljóslega ekki hressir með það. Þeir upplifa það ekki þannig að þær hafi verið teknar til baka. Ég geri mér grein fyrir því að málaflokkurinn er heldur flókinn. Ég vildi koma því að að upplifun öryrkja er ekki sú að þeir geti vaðið inn í Tryggingastofnun ríkisins og fengið peninga þegar þeim sýnist. Þvert á móti líður þeim eins og sjálfkrafa sé komið fram við þá eins og glæpamenn með réttu eða röngu. Ég er viss um að hv. þingmaður getur talað við okkur um það.

Aftur spyr ég og ítreka: Hvað finnst hv. þingmanni sjálfum um það að ríkið fjármagni trúarbrögð?