144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Árið 2013 kom líka betur út vegna þess að tekjustofnar ríkisins reyndust sterkari og gáfu betur af sér en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Það er mjög ánægjulegt. Meiri þróttur í hagkerfinu. Það sýnir líka að tekjuöflunarkerfið er virkt og það skattstig sem varð til með breytingum á síðasta kjörtímabili hefur bara virkað mjög vel. Muna menn sönginn hér um að þetta mundi kæfa allan hagvöxt og hér yrði allt í kaldakoli vegna skattkerfisbreytinganna? Það hefur sem betur fer ekki gengið eftir.

Það sem ég er að reyna að tala um í sambandi við klisjur er til dæmis þetta, frú forseti: Þjóðin mun halda áfram að eldast og þörfin fyrir meira fjármagn inn í þann málaflokk mun verða til staðar þó að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lækki nú skatta. Það er nefnilega þannig. Verkefnið verður þarna. Fólkið þarf þjónustuna og það verður einhvern veginn að borga fyrir hana. Annaðhvort gerir það það í gegnum sameiginlega sjóði eða þetta fólk, sem margt hvert mun ekki eiga ríkan lífeyrisrétt, verður að borga meira sjálft, nema þá að það verði hreinlega af þjónustunni, fái hana ekki. Það er væntanlega ekki meiningin.

Ég bendi mönnum á að lesa bls. 6 í þessu litla hefti þar sem talað er um lægri skatta og skilvirkara skattkerfi. Það er ákaflega lýsandi fyrir sýn hæstv. fjármálaráðherra og væntanlega fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksins — ég geri ekki ráð fyrir því að framsóknarmenn hafi samið þetta — á hlutverk skattkerfisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að einstaklingar njóti beinna kjarabóta af léttari skattbyrði. Ekki er síður mikilvægt að skattkerfið styðji við atvinnulífið og hindri ekki frumkvæði og framtak, vöxt og viðgang fyrirtækja, fjárfestingu og ný störf.“ — Einfalt, réttlátt og stöðugt o.s.frv.

Það er ekki minnst einu orði í þessari umfjöllun á það meginhlutverk skatta að vera tekjustofn fyrir sameiginleg útgjöld. Þaðan af síður er minnst einu orði á það hlutverk skatta að vera upp að vissu marki jöfnunartæki. Hér hefur últra hægri maður haldið um penna sem horfir eingöngu á skatta sem böl og það hljóti alltaf og ævinlega að vera (Forseti hringir.) gott að lækka þá.