144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:45]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Á þingsetningardaginn var samkvæmt þingsköpum lagt fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 til 1. umr. Það er í fyrsta skipti sem því ákvæði þingskapa er beitt og jafnframt komu þá fram tekjufrumvörp. Það skiptir meginmáli fyrir alla umræðuna að samhliða fjárlagafrumvarpi komi tekjufrumvörpin fram svo að unnt verði að ræða jafnt útgjöld sem tekjuöflun samhliða. Máli skiptir að vitað sé hvað er til ráðstöfunar þegar verið er að ákvarða útgjöldin. Því hefur mikil vinna átt sér stað í fagráðuneytum svo og í fjármálaráðuneytinu fyrri hluta þessa árs og í allt sumar og nú hefur þingheimur hafið 1. umr.

Frumvarpið á síðan eftir að fara í gegnum 2. og 3. umr. áður en það verður að lögum en gert er ráð fyrir að 3. umr. hefjist þann 3. desember. Þingið hefur því rýmri tíma til þessarar vinnu nú en nokkurn tíma áður en þrátt fyrir það mun fjárlaganefnd funda mjög stíft næstu vikur þar sem farið verður yfir frumvarpið með ráðuneytum, stofnunum og hlutaðeigandi aðilum fyrir 2. umr.

Í fyrstu fjárlögum núverandi ríkisstjórnar fyrir árið 2014 var lögð rík áhersla á aðhald, sparnað og hagræðingu og að lögð yrðu fram hallalaus fjárlög. Hið sama á við nú í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015. Þau eru lögð fram með 4,1 milljarðs kr. afgangi eða sem nemur 0,2% af vergri landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs fyrir árið 2015 verði 644,5 milljarðar og að gjöld ríkissjóðs verði 640,5 milljarðar. Spáð er að hagvöxtur verði 3,4%.

Þegar farið er yfir útgjaldatölur frumvarpsins sést að langstærsti gjaldaliðurinn er heilbrigðismál, eða um 140 milljarðar, og síðan almannatryggingar og önnur velferðarmál, um 120 milljarðar. Samtals fara því um 260 milljarðar, eða um 40% af tekjum ríkissjóðs, í heilbrigðismál, lífeyris- og örorkumál og önnur velferðarmál.

Ég vil vekja athygli á því hlutfalli af ráðstöfunartekjum ríkissjóðs sem fer til elli- og örorkulífeyrisþega í formi almannatrygginga þó að hverjum og einum sem er í þeirri stöðu finnist hann ekki ofhaldinn af sínum bótum og sé það sannarlega ekki. Hins vegar verður að horfa til framtíðar á samspil lífeyristekna og greiðslu úr almannatryggingakerfinu. Á árinu 2014 var heildarhækkun með verðlagsuppfærslum til þess málaflokks 8.400 milljónir og við bætist síðan 5.400 millj. kr. heildarhækkun með fjárlögum ársins 2015 og er því samanlögð hækkun 2014 og 2015 13.800 milljónir til elli- og örorkulífeyrisþega.

Þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins eru vaxtagjöld af skuldum ríkisins, eða 84,2 milljarðar. Í fræðslu- og menningarmál fara tæpir 72 milljarðar, í forsætisráðuneytið 3 milljarðar, utanríkisráðuneytið 11,4. Þar af fara 2,8 milljarðar í sendiráðin. Ætlað er að 30,2 milljarðar fari í atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, 55,6 í innanríkisráðuneyti, tæpir 10 milljarðar í umhverfis- og auðlindaráðuneyti og 40 milljarðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Vaxtagjöld ríkissjóðs eru eins og fyrr sagði tæpir 85 milljarðar en helsti vandi ríkissjóðs eru þær skuldir sem mynduðust þegar lán voru tekin til að endurfjármagna fjármálastofnanir í kjölfar bankahrunsins og nema nú tæpum 80% af vergri landsframleiðslu. Ljósið í því myrkri er þó að niðurgreiðsla skulda á næstu árum mun lækka hlutfall þeirra af vergri landsframleiðslu jafnt og þétt og er gert ráð fyrir að skuldir verði í lok árs 2018 um 60% af vergri landsframleiðslu, sem er þó vissulega mikil skuldsetning. Til að svo megi verða er stefnt að sölu á 30% eignarhlut í Landsbankanum á næstu tveimur árum og að söluandvirðið verði nýtt til þess að greiða niður þessi lán.

Þá stendur ríkissjóður, eins og fram hefur komið hér áður, frammi fyrir gríðarlegum lífeyrisskuldbindingum, ríkisábyrgðum gagnvart Íbúðalánasjóði svo og auknum útgjöldum vegna þess að þjóðin er að eldast og hlutfall aldraðra Íslendinga eykst. Ríkissjóður þarf að takast á við þessa staðreynd fyrr en seinna og frestun á að bregðast við eykur einungis vanda síðari tíma.

Miðað við þá stöðu sem ríkissjóður er í er ljóst að nauðsynlegt er að halda að og halda í enn um sinn. Það er nauðsynlegt til þess að skuldahlutfallið lækki og til að skuldasöfnun hefjist ekki að nýju. Miklu skiptir þó að núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á að skapa hér stöðugleika og styðja við atvinnulífið með auknum framlögum til nýsköpunar og að bæta rekstrarumhverfi atvinnulífsins. Öflugt og heilbrigt atvinnulíf er meginforsenda tekjuöflunar ríkissjóðs svo staðið verði undir samneyslunni.

Sem betur fer hefur dregið verulega úr atvinnuleysi sem nú mælist undir 3,5%, var 3,3% í júlí. Það er ömurlegt að búa við atvinnuleysi. Hver sem lendir í þeirri stöðu þekkir það mætavel. Það er því fagnaðarefni að sjá þann bata sem hefur komið fram í atvinnulífinu og þá bjartsýni sem er vaknandi og ríkir nú.

Samhliða frumvarpi til fjárlaga eru lagðar til skattbreytingar sem fela í sér breytingar á virðisaukaskatti þar sem dregið er úr mun á efra og lægra þrepi. Undanþáguákvæðum er fækkað og þau felld út og skattstofninn er því breikkaður. Neðra þrepið er hækkað úr 7% í 12% og efra skattþrep lækkar úr 25,5% í 24%, en efra þrepið hefur aldrei verið svo lágt síðan virðisaukaskattur var tekinn hér upp. Það bil sem er nú milli þrepa er með því allra mesta sem þekkist í OECD-ríkjum.

Virðisaukaskatturinn sem var settur á 1990 hefur verið einn mikilvægasti tekjustofn ríkisins en undanfarið hefur vægi hans minnkað úr 35% af skatttekjum ríkissjóðs árið 2006 í rúmlega 29% árið 2013. Lægri tekjur af virðisaukaskatti má að hluta til rekja til minni neyslu í kjölfar hruns en einnig eru sterkar vísbendingar um að kerfið sé ekki nægilega skilvirkt og undanþágur og sérreglur séu ekki til að auðvelda það.

Almenn vörugjöld, sem eru hreinn neysluskattur, eru felld alveg niður við upphaf árs 2015 og svokölluð krónutölugjöld munu ekki hækka milli ára.

Barnabætur verða hækkaðar um 13% og síðan 2,5% vegna verðlagsuppfærslu til að koma til móts við barnmargar fjölskyldur sem mótvægi við þær breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem lagðar eru til. Það er ástæða til að leggja áherslu á að samtals munu barnabætur því hækka um 15,5%.

Heildarniðurstaða þessara breytinga hefur í för með sér aukinn kaupmátt og munu þessar aðgerðir skila um 40 milljörðum til einstaklinga, sem er sambærilegt 5% hækkun á ráðstöfunartekjum frá árinu 2013.

Til viðbótar 5.400 millj. kr. hækkun lífeyris- og örorkubóta er 650 millj. kr. varið til að hækka frítekjumark ellilífeyrisþega til jafns við frítekjumark örorkulífeyrisþega. 1 milljarðs kr. framlag er til að framlengja bráðabirgðaákvæði um 1.315.200 kr. frítekjumark örorkulífeyrisþega í stað 328.800 kr.

Virðulegi forseti. Það er sýnilegt í umræðunni að það eru ekki allir sammála þeim áherslum sem koma fram í þessu fjárlagafrumvarpi, en það er ekki nýlunda. Það hlutverk bíður fjárlaganefndar að fara yfir frumvarpið með ráðuneytum, stofnunum og hlutaðeigandi aðilum.