144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið að fá að fara aðeins í gegnum þær áherslur sem koma fram í þeim hluta velferðarráðuneytisins sem heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðherra. Alls renna um 122,6 millj. kr. til verkefna á sviði félags- og húsnæðismála samkvæmt fjárlagafrumvarpinu árið 2015. Þetta er aukning sem nemur tæplega 3 milljörðum frá þessu ári eða um 2,4%. Það sem varðar megináhersluna í þessu frumvarpi þá er lögð mikil áhersla á að verja bætur lífeyrisþega og tryggja að þær skerðingar sem voru teknar til baka á þessu ári — að við höldum þeim fjármunum hér inni.

Þegar atvinnuleysi jókst mikið hér og skera þurfti niður í ríkisrekstrinum þá tóku lífeyrisþegar á sig umtalsverðar skerðingar og nú þegar atvinnuástandið hefur batnað töluvert taldi ég rétt að það mundi endurspeglast í þeim áherslum sem koma fram í frumvarpinu.

Gerð var 1,3% hagræðingarkrafa á ráðuneytið. Þar sem langstærsti hluti útgjalda til málaflokksins, sem heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðherra, felst í svokölluðum neyslu- og rekstrartilfærslum, sem eru greiðslur til almannatrygginga, greiðslur í gegnum atvinnuleysisbótakerfið og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þá var einfaldlega nær útilokað að ná fram þessari hagræðingu án þess að skerða réttindi. Því er stærsta einstaka aðgerðin í frumvarpinu sú að lagt er til að stytta atvinnuleysisbótatímabilið um sex mánuði, úr 36 mánuðum í 30, til samræmis við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og þrátt fyrir að búið verði að lögleiða þessa styttingu þá verðum við enn með hvað lengsta bótatímabilið á Norðurlöndunum. Það er áætlað að þessi hagræðing muni skila rúmlega 1,1 milljarði kr. Við erum bjartsýn á að hægt verði að hjálpa fólki að fá vinnu í ljósi þess hvað atvinnuástandið hefur batnað mikið. Lögð er áhersla á, eins og sést þegar menn kynna sér frumvarpið, að halda inni þeim upphæðum sem hafa farið í vinnumarkaðsaðgerðir. Það hefur verið reynsla Vinnumálastofnunar á undanförnum árum, og ég vona að sjálfsögðu atvinnulausra líka, að það sem hefur skilað mestum árangri hefur ekki verið lengd bótatímabilsins heldur þær vinnumarkaðsaðgerðir sem hefur verið farið í. Hér er sem sagt verið að standa vörð um þá fjármuni auk þess sem er bætt aðeins í.

Við höfum farið af stað með samstarfsverkefni við sveitarfélögin sem er kallað stígandi og við vonumst til að geta eflt það enn frekar. Það snýst um að tryggja virkni þeirra sem eiga ekki lengur rétt til atvinnuleysisbóta. Það hefur gefið mjög góða raun. Auk þess vil ég líka huga sérstaklega að þeim sem eru eldri, ekki hvað síst konum, og reyna að gera mitt til að upplýsa og fá atvinnurekendur til að taka virkan þátt í því að ráða þetta flotta fólk í vinnu sem er komið yfir fimmtugt.

Ég vil hins vegar nefna sérstaklega stöðu Vinnumálastofnunar. Stofnuninni er gert að mæta hagræðingarkröfu upp á 1,3%. Hins vegar bætist við að tímabundnar fjárheimildir Vinnumálastofnunar eru felldar niður, sem nema um 50 millj. kr. Það er alveg ljóst að sú heildarhagræðing sem stofnunin stendur frammi fyrir mun krefjast verulegra breytinga á starfsemi hennar bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Vinnumálastofnun er sú stofnun sem dreifist kannski mest um landið. Það þýðir náttúrlega að það getur kostað meira. Hins vegar verðum við líka að horfast í augu við það að á höfuðborgarsvæðinu eru langflestir þeir sem eru atvinnulausir, þ.e. um 4 þús. manns og 500 manns bætast við ef við tökum Suðurnesin með líka á móti um 900 manns sem dreifðir eru um landsbyggðina.

Það er líka lagt til að skera verulega niður hjá umboðsmanni skuldara, upp á tæplega 360 millj. kr. Það endurspeglar raunar bætt efnahagsástand og að það er að nást ákveðið jafnvægi á fjölda mála hjá stofnuninni. Þess vegna er gert ráð fyrir að þar sé hagrætt verulega.

Það er ekki gert ráð fyrir því að greitt verði framlag ríkisins til starfsendurhæfingarsjóða á árinu 2015. Í frumvarpinu er fyrst og fremst vísað til þeirrar gífurlegu sjóðsöfnunar sem hefur átt sér stað frekar en við séum að nokkru leyti að hnýta í starfsemi VIRK. Þar er fólk sem vill vinna vel. Hins vegar virðist ríkisstofnunum oftar hafa verið þrengri stakkur sniðinn en VIRK og þegar við samþykktum frumvarpið um starfsendurhæfingarsjóðina þá var einmitt sérstaklega tekið á því í nefndaráliti að ekki ætti að safna miklum varasjóði. Þar eru núna fjármunir sem ættu raunar að duga ágætlega til að sinna verkefnum sjóðsins á næsta ári.

Ég hef því miður ekki meiri tíma hér en það eru ýmis minni verkefni (Forseti hringir.) sem við höfum lagt áherslu á og það gæti þá kannski komið að þeim síðar í dag, sem ég tel að skipti verulega miklu máli. Þau snerta ýmsa viðkvæma hópa.