144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Íbúðalánasjóður sem heyrir undir hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, er í dómsmáli í dag sem sjóðurinn gæti tapað. Mig langar því að spyrja ráðherrann hvort hann viti hvað það tap gæti verið stórt, hvað Íbúðalánasjóður gæti tapað stórum fjárhæðum. Þetta mál varðar útfærslu á verðtryggingunni, ekki hvort verðtryggingin sjálf sé lögleg heldur útfærslu á henni í neytendalánum frá árinu 2001, og þá falla í rauninni öll verðtryggð húsnæðislán og bílalán, húsnæðislán náttúrlega varðandi Íbúðalánasjóð, og þau gætu verið dæmd ólögmæt.

Í kærunni er kveðið á um hvernig eigi að reikna það út. Hefur hæstv. ráðherra skoðað það ef Íbúðalánasjóður tapar þessu máli hvað það kostar fyrir Íbúðalánasjóð annars vegar og svo hins vegar hvort það tap muni falla á ríkið? Er ríkið fjárhagslega ábyrgt fyrir Íbúðalánasjóði, og ef svo er að hve miklu leyti?

Nú erum við að ræða fjárlög og ef þessi fjárlög eiga að standast — upp á hvað, eru það plús 4 milljarðar? þá er það nokkuð ljóst að ef Íbúðalánasjóður tapar þessu máli — Íbúðalánasjóður á 50% af verðtryggðu húsnæðislánunum, er það ekki, og þau eru 70% af öllum lánum í landinu, eða var það öfugt? Þetta er alla vega stór upphæð. Ef Íbúðalánasjóður tapar málinu erum við að tala um mjög háa upphæð. Er ríkið ábyrgt fyrir því ef Íbúðalánasjóður tapar? Hve há er sú upphæð?