144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um fjárlög næsta árs. Ég vil gera grein fyrir þeim þætti er lýtur að innanríkisráðuneytinu.

Ég mun fyrst gera stuttlega grein fyrir heildarútgjaldabreytingu ráðuneytisins. Þau dragast saman um 399,3 millj. kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2014, eða sem svarar til 0,6%. Þegar einnig er tekið tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um rúman milljarð á milli ára sem svara til 1,5% og verða 73.464 millj. kr.

Útgjaldabreytingu milli ára má skipta í nokkra þætti: Í fyrsta lagi er um að ræða hækkun á fyrirliggjandi útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2015 en þær nema 485 milljónum. Munar þar mest um 294 milljónir sem er framlag til Þjóðskrár Íslands, 259 millj. kr. hækkun á lögbundnu framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en á móti kemur tímabundin lækkun framlags til samgangna í samræmi við verkáætlun.

Í öðru lagi falla niður nokkur tímabundin framlög sem ég ætla ekki að fara hér yfir en tengjast verkefnum sem unnin voru á síðasta ári en er ekki þörf á að halda áfram með.

Í þriðja lagi hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að lækka útgjöld ráðuneytisins um 524 millj. kr. í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar sem við höfum sett okkur um hallalaus fjárlög og er góð samstaða um hér á þingi.

Innan ráðuneytisins hefur verið unnið að þeim verkefnum að draga saman en um leið forgangsraða í þágu verkefna sem við teljum mikilvægust. Þar er líkt og áður forgangsraðað mjög kröftuglega í þágu öryggis og traustra innviða. Það er í grunninn gert þannig, virðulegi forseti, að á flest verkefni er gerð um 1,5% aðhaldskrafa, en sum verkefni voru undanskilin slíkri aðhaldskröfu sem kallaði auðvitað á það að önnur verkefni og aðrar stofnanir fá eilítið meira en að jafnaði hagræðingin er.

Við höfum reynt, virðulegur forseti, í þessu frumvarpi að forgangsraða í þágu öryggis og viðhalds í samgöngum. Samgönguáætlun er lögð til grundvallar áfram fyrir forgangsröðun verkefna, en líkt og mörg undanfarin ár og þingheimur þekkir orðið of vel tekst okkur ekki að uppfylla samgönguáætlun að öllu leyti og er það auðvitað miður. Engu að síður eru fjárveitingar til samgöngumála fyrir komandi ár um 850 millj. kr. hærri en í núgildandi fjárlögum, en engu að síður til að halda utan um allar staðreyndir í málinu er framlagið á þessu ári um 2 milljörðum kr. lægra en gert var ráð fyrir í samgönguáætlun. Hugmyndin er sú líkt og hefur þurft að gerast undanfarin ár að framkvæmdum verði ýtt aðeins á undan sér en okkur takist að viðhalda og standa við það viðhald sem nauðsynlegt er.

Það er þannig gert ráð fyrir viðbótarframlagi eins og ég sagði áðan upp á 850 millj. kr. Ég vek athygli þingheims á því að Vegagerðin hefur lagt mikla áherslu á að það verði nýtt til aukins öryggis og viðhalds á vegum landsins.

Varðandi aðra þætti er tengjast forgangsröðun ráðuneytisins skipa málefni sveitarfélaga og nærþjónusta stóran sess. Sveitarfélögin hafa að undanförnu sýnt mikið aðhald, tekið að sér ýmis verkefni og gert það vel. Það er auðvitað mikilvægt að ríkisvaldið sé sá bakhjarl sem við þurfum að vera í því. Þar koma inn þættir sem tengjast samgöngumálum, fjarskiptamálum, þjónustu í héraði, mannréttindamálum og svo mætti áfram telja. Í því samhengi vil ég nota tækifærið og þakka þingheimi fyrir góða samstöðu sem myndaðist um breytingar á lögum hér á síðasta þingi um flutning og breytingu á stöðu framkvæmdarvalds í héraði sem við erum að vinna kröftuglega og ötullega að og skiptir miklu máli í þessu samhengi þegar við tölum um þjónustu við sveitarfélögin.

Hvað fjarskiptamálin almennt varðar, sem eru auðvitað stór mál og brýn mál og þar verðum við sannarlega að gera betur, er gert ráð fyrir því að ný endurskoðuð fjarskiptaáætlun verði lögð fram á Alþingi í febrúar á næsta ári og auk þess er núna unnið undir forustu hv. þm. Haraldar Benediktssonar að ákveðinni útfærslu alþjónustukvaða til þess að innleiða og tryggja aukinn aðgang almennings um allt land að fjarskiptum.

Ég vil einnig geta þess að í fjárlagafrumvarpinu, sem skiptir miklu máli varðandi uppbyggingarþætti, er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Hönnun á ferju vegna Vestmannaeyja er hafin og komin í gang. Fleiri stór verkefni mætti nefna.

Ég vil að lokum, virðulegur forseti, nefna verkefni sem er viðvarandi og hefur verið það á undanförnum árum á vettvangi innanríkisráðuneytisins, því það hefur verið mjög aukinn kostnaður í kringum það verkefni á undanförnum árum, en það eru málefni innflytjenda. Við erum núna með þverpólitíska nefnd að vinna í því verkefni. Við erum að gera miklar grundvallarbreytingar sem flestar tóku gildi núna í lok ágústmánaðar og breyta miklu er varðar þjónustu, málsmeðferðarhraða, kostnað og annað er tengist þessum málefnum. Ég vil meina að með þeirri breytingu sem þá hefur tekið gildi og þeim breytingum sem munu taka gildi séum við að skipa okkur í röð þeirra þjóða sem sinna þessum málum hvað best.

Ég vil líka að lokum, virðulegur forseti, við getum hugsanlega komið inn á það betur í umræðunni, nefna að gerð hefur verið tillaga um ákveðna lagfæringu skulum við segja á sóknargjöldum og því sem greitt er til trúfélaga. Það er í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þess efnis, en það er líka í framhaldi af bréfi fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hét kirkjunni og öðrum trúfélögum því á sínum tíma að unnið (Forseti hringir.) yrði á þeirri skerðingu og samið við aðila um hvernig vinna mætti vel á því.

Svo þakka ég fyrir og óska eftir góðri umræðu um þessi mikilvægu mál.