144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefnir varðandi þær breytingar sem þurfa, eiga og verða að eiga sér stað í útlendingamálum almennt og í málefnum innflytjenda. Ég held að það sé ekki einungis samfélagsleg skylda okkar heldur líka siðferðisleg skylda okkar að taka aðeins sameiginlega á þeim verkefnum og við erum að leggja miklu vinnu í það og það hafði líka verið lögð mikil vinna í það í ráðuneytinu áður en ég kom þangað inn.

Við eigum eftir að sjá, virðulegur forseti, nákvæmlega hverju það skilar okkur. Við erum auðvitað að vonast til þess að við náum að nýta fjármagnið betur — að stytting á málsmeðferðartíma valdi því að fjármagnið sem við höfum til ráðstöfunar nýtist betur og sá kostur sem við höfum valið að fara sem er norska leiðin. Í Noregi hefur hún skilað þeim því að þeir ráða betur við að nýta fjármagnið vel og þeir ráða betur við verkefni. Við erum auðvitað að vonast til þess að þannig gerist það hjá okkur.

Hv. þingmaður sem hér talaði og bar fram fyrirspurnina situr í þverpólitískum þingmannahópi sem fjallar um málið. Ég get ekki fullyrt nákvæmlega hver verður niðurstaðan þar. Mér finnst ekki ólíklegt að menn byggi löggjöfina á svipuðum forsendum og ætlað var með uppleggi frá því fyrir svona tveimur árum síðan, en ég vænti þess að menn eigi gott samstarf við sérstaklega velferðarráðuneytið í því samhengi og Útlendingastofnun og aðra. Við sjáum hvert það færir okkur. Ég bind miklar vonir við það.

Varðandi fangelsismálin þá er ekki í þessu frumvarpi, þrátt fyrir að það sé ekki sundurliðað sérstaklega, gert ráð fyrir breytingu. Það er ekki gert ráð fyrir að við séum að haga málum með allt öðrum hætti en við höfum gert. Eins og ég sagði áðan, og við eigum að vera stolt af, erum við og Norðmenn að standa okkur best hvað varðar þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við þegar litið er til menntunartækifæra og tækifæra þessara aðila til þess að koma sér aftur á góðan stað í samfélaginu. Við getum örugglega alltaf gert betur. Ég (Forseti hringir.) er sammála því og hef sagt það hér áður úr þessum ræðustóli að það segir ýmislegt um samfélag hvernig það býr að þessum hópi. Þannig að við höfum verið að gera margt gott þar en hljótum að geta bætt okkur enn frekar.