144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ekki skal standa á mér að skoða það með hæstv. ráðherra að útvíkka fyrirkomulagið varðandi jöfnun flutningskostnaðar. Ég er algerlega sammála að veruleg þörf er á því, bæði annars vegar vegna vissrar framleiðslustarfsemi sem ekki er á landsbyggðinni og nýtur ekki flutningsjöfnunar. Ég hef rekist á það í framleiðslufyrirtækjum austur á landi til dæmis, að þau fá greidda flutningsjöfnun á suma þætti framleiðslustarfsemi sinnar en ekki aðra og það kemur mönnum spánskt fyrir sjónir.

Síðan ef menn vildu virkilega taka á þessu máli og færu með flutningsjöfnunina að einhverju leyti inn í almennar neysluvörur og verslunina eða fyndu aðrar leiðir til dæmis í samráði við Byggðastofnun um að reyna að mæta eitthvað þeirri gríðarlegu lífskjaraskerðingu sem hár flutningskostnaður er á þessum sömu svæðum og birtist í almennu vöruverði.

Varðandi Framleiðnisjóð get ég alveg farið yfir það með hæstv. ráðherra, og ég treysti því að hann geti fengið það staðfest hjá Bændasamtökunum, að þegar menn voru í þessum erfiðu aðgerðum á árunum 2009, 2010 og 2011 tókst mjög gott samstarf milli stjórnvalda og Bændasamtakanna um hvernig yrði þá forgangsraðað í þeim efnum. Valið var að taka niður Framleiðnisjóð og reyndar líka að ríkið færi út úr greiðslum inn í Lífeyrissjóð bænda en í staðinn yrði að fullu staðið við greiðslur sem tryggðu búvöruframleiðsluna sjálfa og þannig reynt að verja tekjur bænda og grundvöll framleiðslustarfseminnar. Frá þessu var gengið á þann hátt sem Bændasamtökin töldu skást úr því að mæta þurfti aðhaldskröfu á þessu sviði eins og öðrum. Ég vil halda því fram að það hafi tekist vel að fleyta landbúnaðinum í gegnum þessar dýfur og í raun tóku búvörusamningarnir og sjálfur grundvöllur framleiðslunnar aldrei á sig nema upphaflegu 10% skerðinguna sem fyrri ríkisstjórn ákvað í desember 2008.

Því var hins vegar heitið að Framleiðnisjóður yrði svo byggður upp í áföngum og um það var síðan samið árið 2012. Mönnum kann að þykja þetta lítið sem þarna er á ferðum en þetta er prinsippmál, og mér finnst það mjög miður ef farið er inn á það spor að skerða samningsbundin fyrirheit um greiðslur, (Forseti hringir.) þó lágar fjárhæðir séu, án þess að það sé þá gert í samráði við Bændasamtökin, sem ég veit ekki til að hafi átt sér stað í þessum efnum.