144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:54]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langaði að byrja á að spyrja um sóknaráætlun landshluta. Skil ég það rétt að eftir leiðréttingu eigi rétt um 100 milljónir að fara í þann málaflokk? Það finnst mér afar lítið. Þetta verkefni vakti mikla lukku og þvert á flokka voru sveitarstjórnarmenn almennt mjög ánægðir með þetta verklag. Þegar mikið var skorið niður í fyrra veit ég að það var kvartað mikið yfir því. Eitthvað voru framlögin hækkuð en þá skildi ég það þannig að menn væru að draga saman í ár en ætluðu svo að fara aftur á fullt þegar betur áraði. Ég spyr því: Á virkilega að setja bara 100 milljónir í sóknaráætlun landshluta? Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það verði þá aukið verulega í á næsta ári eða hvernig er framtíðarsýnin hvað þetta varðar?

Ég hafði líka tekið eftir þessu sama og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir varðandi byggðaáætlun og þetta 50 millj. kr. framlag vegna sértækra aðgerða. Hæstv. ráðherra útskýrði það ágætlega. Það eru svæði þar sem það snýst ekki bara um sjávarútveg, eins og oft er, heldur einnig viðkvæm landbúnaðarsvæði. Þá langar mig bara að spyrja hvort Byggðastofnun muni sjá um framkvæmdina á þessu verkefni. Ég treysti henni til að gera það ágætlega.

Ég veit ekki hvort ég þori út í þá umræðu en þegar ég heyri talað um Framleiðnisjóð landbúnaðarins finnst mér einboðið að hagræða með því að setja þessa peninga inn í þá rannsóknasjóði sem til eru. Ég heyri svo sem á máli manna hér að það er kannski ekki stemning fyrir því. Ég held að það hljóti samt að auka skilvirkni að vera ekki með apparat í kringum hvern einasta rannsóknasjóð. Þess eru dæmi að það sé verið að veita styrki í sömu hlutina og hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri er að gera. Ég mundi halda að það væru sóknarfæri í að setja þessa peninga inn í aðra rannsóknasjóði en jafnframt tryggja að þeir verði nýttir í þágu landbúnaðar. Þetta er nú einu sinni ríkisfé og löggjafinn hlýtur að geta tryggt með einhverjum hætti að þessir peningar verði nýttir í landbúnað.

Ég tek líka undir áhyggjur hæstv. ráðherra af stöðu landbúnaðarháskólans. Ég þyrfti kannski að spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í hana, en sú staða er mjög alvarleg og kemur niður á rannsóknum í landbúnaði þannig að maður sér ekki alveg fyrir endann á því máli.