144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta sló ekkert sérstaklega á áhyggjur mínar vegna þess að það sem ég hef áhyggjur af í þessu er að við vorum lögð af stað í ákveðinn leiðangur. Þessi ríkisstjórn ákveður að hægja á þeim leiðangri með því að draga úr fjármunum sem fara til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og snúa af þeirri braut sem þar hafði verið mörkuð. Það þarf að koma eitthvað ákveðið í staðinn. Það er ekki hægt að segja við okkur sama ár og við erum að nálgast milljón ferðamenn að frumvörp séu á leiðinni. Það er „akút“ ástand. Það er bara þannig. Þess vegna hefði ég talið miklu ábyrgara að bregðast við vegna þess að þetta er atvinnugrein sem á allt undir því að söluvaran, náttúra Íslands, sé áfram eins óspjölluð og gerlegt er, eins vel varin og hin mannlega hönd getur staðið að.

Þess vegna finnst mér þetta ekki ásættanlegt. Ég ætla að fá að skora á hæstv. ráðherra að tryggja það og ræða við sitt fólk um það að í þessu millibilsástandi, áður en frumvörp koma fram og áður en hugsanlegur náttúrupassi í einhverri mynd sem hefur verið ræddur hér lengi kemur fram, þá setji menn fjármuni í þetta vegna þess að ég tel okkur ekki geta beðið.

Það var vel gert að setja fjármuni í þetta verkefni í sumar, ég skal taka undir það, en þar með er því ekki lokið. Þetta er stærðarinnar verkefni. Það heldur áfram. Ég tel að það megi ekki koma í það eyða á meðan við bíðum eftir nýjum frumvörpum og lögum. Ég mun standa með ráðherranum í því að reyna að sækja fjármuni í þessi verkefni þannig að hægt sé að halda áfram uppbyggingu og vörnum á ferðamannastöðum á næsta ári.