144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög meðvitaður um mikilvægi þeirra háskólastofnana sem hv. þingmaður nefnir. Það var einmitt á þeim grunni sem ég lagði til að ráðist yrði í umfangsmikla sókn hvaða varðar stöðu Landbúnaðarháskólans, að sameina þann skóla Háskóla Íslands, þeirri öflugu og miklu menntastofnun, og auka um leið framkvæmdir og setja af stað nýja starfsemi á Hvanneyri þessu tengda. Því miður náðist ekki pólitísk sátt um það mál og þá stóð auðvitað eftir að við yrðum að halda þessari stofnun eins og öðrum og gera allt sem við gætum til að halda henni innan fjárlaga. Það er sú staða sem uppi er núna. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem þar eru í forsvari fyrir þeirra starf við mjög erfiðar aðstæður. Þetta er sú staða sem uppi er og það verkefni er óumflýjanlegt.

Hvað varðar læsi og undirbúninginn fyrir lífið er ég þakklátur fyrir þau ummæli sem hv. þingmaður lét falla í minn garð og vil einmitt taka undir að það er varla hægt að nefna dæmi um nokkra þá færni sem er mikilvægara veganesti út í lífið en það að geta lesið sér til gagns. Ég er þeirrar skoðunar að grunnskólinn sé besta tækifærið og besta tækið sem við höfum til að tryggja það að börn eigi sömu tækifæri í lífinu óháð efnahag eða félagslegri stöðu foreldra sinna. Það segir sig sjálft að það að við skulum hafa látið þá stöðu verða til í okkar samfélagi á undanförnum árum að við lok grunnskóla geti um 30% drengja ekki lesið sér til gangs er auðvitað ákveðinn áfellisdómur, það er ekkert hægt að horfa fram hjá því, en um leið líka mikil áskorun fyrir okkur að snúa vörn í sókn. Rétt er að hafa í huga að það eru mjög margir þættir sem hafa áhrif á læsi. Það væri mikil einföldun á þeim vanda að það sé bara eitthvert eitt atriði sem ráði þar öllu um, (Forseti hringir.) miklu heldur er hér um að ræða mjög marga samverkandi þætti sem hafa leitt til þessarar niðurstöðu.