144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna sem hefur staðið hér allan daginn í gær og í dag. Ég get sagt sem svar við spurningu sem til mín var beint í síðustu ræðu að það eru ekki uppi áform um að gera þær grundvallarbreytingar á kerfinu að afnema undanþágurnar. Ég tel að þótt hægt sé að færa fyrir því mjög gild rök að vera með eitt almennt virðisaukaskattsþrep séu ýmis rök fyrir því að það muni seint ganga og valda okkur meiri vanda en við værum að leysa með því að stíga það skref til fulls.

Í því sambandi vil ég til dæmis nefna hversu algengt það er að löndin í kringum okkur, lönd sem við ferðumst til og lönd sem við fáum ferðamenn frá, séu að vinna í tveimur þrepum. Það gildir til að mynda almennt á Norðurlöndunum þótt Danmörk sé þar undantekningin. Þetta þýðir að það eru atvinnugreinar sem verða einfaldlega síður samkeppnishæfar ef við ætlum að starfa í mun hærra þrepi fyrir þá atvinnustarfsemi. Því til vitnis er sú þróun sem hefur orðið í ferðaþjónustunni. Þar er almennt verið að efla og styðja atvinnugreinina með því að hafa hana í lægra þrepi. Það væri mjög erfitt fyrir íslenska ferðaþjónustu að vera alfarið í efra þrepinu og keppa í verðum við þá sem búa við hinar aðstæðurnar, vegna þess að ferðamenn leita mjög hagstæðra tilboða í því tilliti. Þetta er almennt um virðisaukaskattsmálin.

Ég sagði áðan að menn fyndu ekki lægra þrep en 12% á Norðurlöndunum. Þar var ég að vísa í matvælin vegna þess að þau hafa verið mjög til umræðu í dag og í gær. Það er ekki dæmi um það á Norðurlöndunum að matvæli séu í lægra þrepi en 12% og menn finna heldur ekki lægra þrep sem almennt þrep en 24%. Mér finnst að menn hljóti að horfa til þess. Menn hljóta að horfa til þessa í heildarsamhengi hlutanna og þegar spurt er hvort við séum á réttri leið með þessum breytingum.

Ég hef í sjálfu sér komið öllu að sem ég ætlaði að koma að í 1. umr. Ég vil þakka fyrir hana. Það var tekist nokkuð hart á um ýmis grundvallaratriði og það er ekki nema eðlilegt. Við erum að leggja hér til töluvert miklar kerfisbreytingar. Stærsta einstaka skrefið í þeim er kannski að afnema almennu vörugjöldin. Það tel ég að sé gríðarlega mikið framfaramál. Gleymum ekki í því sambandi að það er fjöldinn allur af störfum sem snúast um fátt annað en að greiða úr þeirri flækju sem 800 vöruflokkar standa frammi fyrir við að raða inn í mismunandi þrep. Það gildir hjá bæði hinu opinbera og í einkageiranum og hefur ekki farið fram hjá mér undanfarna daga hversu margir fagna þessari einföldun þó ekki væri nema fyrir hana. Hitt er síðan að við teljum að með þessu sé skilað kjarabótum til almennings. Það er auðvitað aðalatriði málsins.

Að þessu sögðu þakka ég aftur fyrir umræðuna og geri ráð fyrir að málinu verði nú vísað til nefndar og þar bíður heilmikið verk, en það er góður tími.