144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

rafræn auðkenni og skuldaleiðrétting.

[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það hefur einmitt verið mjög til hagræðis að öll samskipti vegna skuldaleiðréttingarinnar hafa verið höfð með rafrænum hætti allt fram til þessa dags og lítið verið um umkvartanir vegna þess. Var reyndar bundið í lögin að samskiptin skyldu vera með þeim hætti. Enginn var betur til þess fallinn til að taka að sér undirbúning að slíkum samskiptum en ríkisskattstjóri.

Síðan þegar málið er komið á það stig að allar umsóknir hafa verið mótteknar og menn eru að undirbúa næstu skref kemur það upp í þeirri vinnu sem fram fer innan ráðuneytisins og í samstarfi við ríkisskattstjóra og aðra þá sem haldið hafa utan um þessi mál að miklu kunni að skipta að gæta ýtrasta öryggis við útgreiðslu á þeim 80 milljörðum sem til stendur að vísa inn á húsnæðislán þeirra sem fá samþykktar umsóknir. Það getur skipt miklu máli í ýmsu tilliti sem ég get ekki rakið í smáatriðum hér en það getur t.d. verið þegar breytingar hafa orðið á hjúskaparstöðu, fólk er fallið frá o.s.frv., til að fá samþykki fyrir því að útgreiðslunni sé ráðstafað með þeim hætti sem til stendur að gera.

Í þeim samskiptum hefur ekkert annað vakað fyrir þeim sem hafa haft veg og vanda af undirbúningnum en að gæta ýtrasta öryggis. Í rafrænum samskiptum eru mishá stig öryggis og það stig öryggis sem gildir í samskiptum við Auðkenni og byggir á rót sem íslenska ríkið á þykir vera fullnægjandi og ásættanlegt á meðan ýmsir aðrir valkostir uppfylla ekki sömu öryggiskröfur. (Forseti hringir.) Þetta breytir því ekki að til stendur að bjóða öllum þessa lausn gjaldfrjálst og (Forseti hringir.) líka aðra valkosti ef ástæða þykir til.