144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

rafræn auðkenni og skuldaleiðrétting.

[15:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það þykja mér ágætar fréttir að menn bakki frá fyrri ákvörðun. En ég furða mig engu að síður á þessum málatilbúnaði og sú spurning vaknar hvort menn þurfi ekki sams konar öryggi þegar þeir skila virðisaukaskattsskýrslum eða skattskýrslum almennt eða taka á móti peningum, miklum peningum, vaxtabótum til dæmis. Þessa hefur ekki verið krafist þá.

Síðan spyr ég sjálfan mig líka og ég veit að margir gera það, ég er ekki einn um það, hvers vegna menn þurfi að staðfesta með undirskrift sinni útreikninga stjórnvalda hvað þetta snertir. Afsala menn sér einhverjum réttindum með því móti, réttinum til að áfrýja eða kæra? Ég hygg að eini rétturinn sem einstaklingur hafi byggist á hugsanlega einhverri jafnræðisreglu gagnvart öðru fólki, en til hvers þarf þessar undirskriftir? Það fæ ég ekki skilið.(Forseti hringir.)

Ég minni á það að innan stjórnkerfisins hafa verið miklar deilur um þetta. (Forseti hringir.) Nú er að vakna upp draugur sem hefur stundum sofið og stundum vakað (Forseti hringir.) í fjármálaráðuneytinu og er núna að notfæra sér þetta tækifæri til að efla viðskiptin við Auðkenni.