144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skattsvik.

[15:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra og ræða aðeins við hann um skattsvik sem við hljótum öll að vera sammála um að þurfi að berjast gegn. Á bls. 22 í frumvarpi til fjárlaga, fyrri hluta, er verið að tala um ferðaþjónustuna og að ferðamönnum hafi fjölgað en opinber gögn sýni hins vegar að hver ferðamaður eyðir lægri fjárhæð en áður sem sé í andstöðu við það sem ætla mætti af bakgrunni þeirra og lengd dvalar. Þetta ósamræmi gagna er talið geta gefið vísbendingar um svarta atvinnustarfsemi í greininni.

Það er óþolandi fyrir þessa atvinnugrein að sitja alltaf undir ámælum um svarta atvinnustarfsemi og auðvitað er líka óþolandi að hún sé við lýði gagnvart þeim sem standa skil á öllu sínu. Síðan er það því miður þannig að okkur tekst ekki að innheimta skattkröfur eða skattskuldir eins og ætti að vera. Mér sýnist í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir auknum fjármunum til að koma á móts við það. Það er beinlínis til vandræða hvað okkur tekst illa að innheimta skattskuldir, Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir við það.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki sammála því að skattsvik séu með öllu ólíðandi, skekki samkeppni, minnki skatttekjur ríkisins og séu samfélagsmein sem þurfi að uppræta.