144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skuldaniðurfærsla fyrir leigjendur og búseturéttarhafa.

[15:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Síðasta vor samþykkti stjórnarmeirihlutinn hér að létta greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar af hluta íslenskra heimila með ákvörðun um 80 milljarða skuldaniðurfærslu á þá sem eiga eigið húsnæði á komandi fjórum árum. Samfylkingin lagði fram tillögu um að leigufélög og húsnæðissamvinnufélög mundu njóta svipaðrar fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins en það var fellt í þingsal. Í umræðum um þessar niðurfærslur á skuldum komu oft fram áhyggjur okkar af stöðu þeirra sem eru búseturéttarhafar og leigjendur. Þá var vísað á framtíðina og sagt að fundnar yrðu leiðir til að mæta þessum hópum.

Í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpinu sér þess hvergi stað að þessum hópum sé mætt spyr ég nú hæstv. fjármálaráðherra hvað hann hyggist fyrir. Hvað stendur til að gera til að mæta búseturéttarhöfum og leigjendum til að húsnæðiskostnaður þeirra lækki sambærilega og þeirra sem eiga eigið húsnæði? Liggur fyrir hversu háar fjárhæðir þarf að ætla til þessa á milli umræðna?

Það er líka vert að benda á í þessu samhengi að oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg, Halldór Halldórsson, sem jafnframt er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur bent á að seinagangur ríkisvaldsins við að koma á nýju húsnæðisbótakerfi hamli mjög ákvörðunartöku um frekari uppbyggingu til dæmis félagslegs húsnæðis en nú eru 1.800 manns á biðlistum í sjö stærstu sveitarfélögunum.

Hvað hyggst fjármálaráðherra fyrir til þess að mæta þessum hópum?