144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér stöðu og öryggi í fjarskiptum og uppbyggingu háhraðatenginga á landsbyggðinni í ljósi víðtækra bilana sem komu upp í búnaði Mílu og farsímakerfi Símans á Vestfjörðum 26. ágúst sl. Símasamband og gagnaflutningar urðu óvirkir og netið þar með. Það er með öllu óásættanlegt að heill landshluti verði sambandslaus í margar klukkustundir svo að algjört uppnám skapist í öryggismálum á því svæði sem bilunin náði til. Ekki var hægt að hringja í neyðarlínuna, lögreglu, sjúkrahús eða aðrar mikilvægar stofnanir á Vestfjörðum auk mjög mikilla óþæginda sem sambandsleysið hafði fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.

Þetta alvarlega atvik leiddi í ljós mikinn veikleika í fjarskiptum og öryggismálum Vestfirðinga sem er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál og með öllu óviðunandi og ógnar öryggi og velferð fólks og skapar ótta um að þetta geti gerst aftur. Ekkert varasamband var um svæðið og það vakti athygli hve langan tíma viðgerðin tók. Maður spyr sig hverjar afleiðingarnar hefðu getað orðið ef þessi bilun hefði átt sér stað í vonskuveðri að vetrarlagi.

Það er ljóst að þrátt fyrir áætlanir Mílu um að styrkja örbylgjusambandið og endurnýja búnað sinn verður það aldrei fullnægjandi ráðstöfun til að tryggja fjarskiptaöryggi á Vestfjörðum. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga og sveitarstjórnir á Vestfjörðum hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að ljósleiðarinn sem liggur um Vestfirði sé hringtengdur þar sem ekkert varasamband fjarskipta er um svæðið.

Málið hefur verið í umræðunni um árabil og lítið þokast og lent m.a. sem bitbein á milli einkaaðila og hins opinbera um skilgreiningu svæða, hvort þau falli undir markaðsbrest eða hvort um næga samkeppni sé að ræða. Slíkt óöryggi hefur sýnt sig að er algjörlega óásættanlegt og því nauðsynlegt að koma á varanlegum úrbótum með hringtengingu og ljósleiðara hið snarasta.

Einkavæðing Símans á sínum tíma hafði þær afleiðingar að grunnnetið fór úr eigu ríkisins til einkaaðila og rekstur þess var færður í sjálfstætt félag sem er Míla. Reynslan hefur sýnt hve mikil mistök það voru að einkavæða grunnnetið. Síðan hefur uppbygging á þeim svæðum sem ekki eru sterk markaðssvæði gengið allt of hægt fyrir sig, sem sýnir hvernig einkavæðingin leikur þau svæði sem eru fámenn og dreifbýl. Að sjálfsögðu ætti grunnnetið sjálft að vera í eigu þjóðarinnar þar sem fjarskiptafyrirtækin kepptu sín á milli og seldu sína þjónustu. Núverandi ástand hefur falið í sér miklar offjárfestingar með tilheyrandi óhagræði og peningasóun.

Fjarskiptasjóður var stofnaður á sínum tíma til að stuðla að uppbyggingu fjarskipta á strjálbýlli svæðum þar sem virk samkeppni fjarskiptafyrirtækja var ekki til staðar. Hlutverk hans er því mjög mikilvægt í byggðalegu tilliti og brýnt að sjóðurinn sinni vel hlutverki sínu og er það ljóst að aukin framlög þurfa að koma til svo að sjóðurinn geti sinnt sínu hlutverki af krafti. Stjórnvöld verða að stíga strax inn í þessar aðstæður því að hér er um gífurlegt öryggismál að ræða fyrir heilan landshluta.

Það er fullreynt að núverandi fyrirkomulag skilar ekki ásættanlegum árangri. Háhraðatengingar í dreifbýli eru ásamt öruggum fjarskiptum eitt af lykilatriðum í góðum búsetuskilyrðum í nútímasamfélagi.

Ég var fyrsti flutingsmaður sl. vetur á þingsályktunartillögu um háhraðatengingar í dreifbýli. Tillagan fól í sér að innanríkisráðherra yrði falið í samstarfi við fjarskiptasjóð að gera nýja þarfagreiningu og landsáætlun um háhraðatengingar í dreifbýli með það að markmiði að allir landsmenn ættu kost á háhraðatengingu. Í þeim umræðum kom fram að farin væri af stað vinna í innanríkisráðuneytinu um endurskoðun á fjarskiptaáætlun. Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra eftirfarandi spurninga:

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við alvarlegu ástandi eins og var á Vestfjörðum í ágúst sl. þegar víðtæk bilun varð þar á búnaði Mílu og farsímakerfi Símans og hver er ábyrgð viðkomandi fyrirtækja?

Hefur hæstv. ráðherra sett af stað rannsókn á því hvað fór úrskeiðis svo að slíkir atburðir sem stofna öryggi íbúa í hættu endurtaki sig ekki?

Hvenær lýkur vinnu á vegum innanríkisráðuneytisins við að kortleggja og þarfagreina uppbyggingu á háhraðatengingu í dreifbýli landsins?

Hvenær mun hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum ljúka og öflug háhraðatenging standa öllum landsmönnum til boða?

Og í lokin: Hvenær verður farsímasambandi komið á í Vestfjarðagöngum sem tryggir aukið öryggi vegfarenda líkt og er í öðrum nýlegum jarðgöngum?