144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum dögum rætt talsvert um þann kostnað sem sjúklingar bera í heilbrigðiskerfinu, m.a. vegna lyfja. Vísast mun sú umræða halda áfram þegar við förum að ræða ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins enda um mjög stórt pólitískt mál að ræða.

Ég vil nota þennan dagskrárlið til að eiga orðastað við hv. þm. Pétur Blöndal. Tilefnið er frétt í Fréttablaðinu frá því í gær þar sem segir að formaður nefndar um greiðsluþátttökukerfi sjúklinga, sem er einmitt hv. þm. Pétur Blöndal, vonist til að leggja fram róttækar tillögur um breytingar á kerfinu á næstu mánuðum þar sem enginn sjúklingur eigi að greiða meira en 120 þús. kr. á ári fyrir læknismeðferð, burt séð frá umfangi hennar. Þá eru í fréttinni nefnd ýmis dæmi um þann kostnað sem þarna eigi að falla undir, svo sem lyf, rannsóknir, sjúkraflutningar, svo eitthvað sé nefnt.

Mig langar því af þessu tilefni að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal annars vegar hvort þetta séu vangaveltur hans eins sem fjallað er um í þessari frétt eða hvort búast megi við að tillögur nefndarinnar verði í þessa átt og byggi á þessari hugsun og hvort eining sé innan nefndarinnar um að greiðsluþátttökukerfi sjúklinga verði komið á.

Hins vegar vil ég spyrja um það hvort áform séu um að hvers lags hjálpartæki sem fólk þarf að nota vegna skerðingar eða veikinda sinna verði felld undir slíkt greiðsluþátttökukerfi. Það er ekkert minnst á hjálpartæki í umfjölluninni í þeirri blaðagrein sem ég vísaði í. En ég hefði mikinn áhuga á því að vita hvort þetta sé eitthvað sem nefndin hafi tekið til umræðu.