144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur talað í þessu máli fyrir utan málsflytjanda, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. (Gripið fram í.) Hann hefur farið yfir nokkra þætti málsins eins og við höfum heyrt og meira að segja haft hátt um einstaka þætti. En hann hefur ekki rætt um ákveðna þætti sem mig langar að spyrja hann út í. Það er til dæmis varðandi það sem er eitt af því fáa sem er í frumvarpinu um einföldun kerfisins, þ.e. að breyta virðisaukaskattskerfinu gagnvart ýmsu í ferðaþjónustu. Sú breyting á að taka gildi 1. mars nk. þegar þrír mánuðir eru liðnir af næsta ári.

Nú er það svo að þegar síðasta hæstv. ríkisstjórn kom með frumvarp inn um breytingu á þessum sömu liðum þá man ég ekki betur en að hv. þingmaður hafi farið hamförum, talað hátt og lengi um þá ósvinnu, sem hann kallaði svo, að ætla sér að gera þær skattkerfisbreytingar sem þar var verið að boða á ferðaþjónustuna með svo stuttum fyrirvara. Þar var aðlögunartíminn sex mánuðir og í meðförum þingsins og í meðförum ríkisstjórnar var það lengt upp í níu mánuði. Hér er verið að gera þetta með þriggja mánaða aðlögun.

Hv. þingmaður nefndi það oft þá, sem var alveg rétt, að ferðaþjónustuaðilar voru þá allir búnir að gefa út sínar verðskrár. Hvað hefur breyst, virðulegi forseti, frá stjórnarandstæðingnum Guðlaugi Þór Þórðarsyni yfir í stjórnarsinnann hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarsyni hvað þetta varðar?