144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var nú bara ærlegur í svari mínu og mér finnst að hv. þingmaður eigi að vera það líka. Ég er ekkert að lýsa mig mótfallinn fjárlagafrumvarpinu. Ef hv. þingmaður ætlar að spyrja mig hvort ég sé sammála hverju einasta atriði sem þar er þá er það ekki svo. Ég efast um að hv. þingmaður hafi nokkurn tíma verið sammála öllu því sem var í þeim fjárlagafrumvörpum sem við keyrðum í gegn, samherjar í ríkisstjórn, eða þegar hann var í ríkisstjórn. Þannig er það ekki.

Ég segi það alveg eins og er og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson nefndi það alveg skýrt að þetta væri það viðkvæmasta í þessu máli. Hv. þingmaður fór alveg ágætlega yfir ýmsa þætti þess máls.

Hv. þingmaður spurði sömuleiðis hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson út í þennan þáttinn, varðandi ferðirnar, og ekkert nýtt er komið í því. Við verðum að hafa einhver prinsipp í því þegar menn fara í skattlagningu. Ef það er ekki gert lendum við í vanda vegna þess að þá munu menn sækja rétt sinn. Það verður að vera samhengi í hlutunum. Prinsippið þarna eru áætlunarferðir og almenningssamgöngur vega kannski þyngst þar — kannski eru þær eini þátturinn, ég hef ekki skoðað það — eru þá undanþegnar. Menn eru eðli máls samkvæmt að reyna að hafa meiri tekjur af undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, einum, sem er ferðaþjónustan. Ég held að menn hafi bara verið mjög hreinir og beinir í því.

Æskilegast væri að við gætum gengið lengra og samræmt þessa hluti enn frekar. Þá þýðir að öðrum þeim markmiðum sem við viljum ná, hvort sem það er að styðja fólk til íþróttaiðkunar eða annað slíkt, þurfum við að ná eftir öðrum leiðum. En vandinn er sá að þegar við förum að pikka hluti út, eins og menn hafa gert í gegnum skattkerfið, þá sitjum við á endanum uppi með kerfi eins og vörugjaldakerfið sem er í eðli sínu orðið mjög flókið (Forseti hringir.) og óskilvirkt.