144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Umræðan um þetta frumvarp sem er á þskj. 2, annað aðalmál þessarar ríkisstjórnar, hefur um margt verið hér ágæt í dag. Þetta frumvarp fjallar um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskattskerfið sem var tekið upp í ársbyrjun 1990, og um vörugjöldin frá 1987 með öllum þeim breytingum sem þar á hafa verið gerðar.

Það hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með þessari umræðu eins og hún hefur orðið. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan, ég sakna þess mjög að allir hlutir skuli ekki koma fram og kannski enn meira eftir að ég heyrði hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur lýsa því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefði lýst því yfir einhvers staðar að þingflokkurinn eins og hann leggur sig hafi haft fyrirvara á þessu frumvarpi. Það hafði ég ekki heyrt áður þó að ég hafi heyrt um einstaka þingmenn. Það er mjög bagalegt fyrir þessa 1. umr. að þeir fyrirvarar sem framsóknarmenn hafa sett inn komi ekki fram og hvað þeir sjá málinu helst til foráttu.

Áður fyrr sátu nefndarmenn viðkomandi nefnda við 1. umr. Það hefur ekki verið mikið um það núna, en eitthvað þó og ber að sjálfsögðu að þakka fyrir það. Samt á ekki að þurfa að þakka fyrir það.

Eins og ég segi eru hér lagðar fram stórar og miklar breytingar á virðisaukaskattskerfinu, þ.e. að lækka efra þrepið, hækka neðra þrepið og taka út nokkrar undanþágur sem hafa verið í neðra þrepinu. Það er allt og sumt sem heitir um einfaldleikann.

Sá sem hér talar er talsmaður þess að hafa skattkerfið einfalt, alls ekki flókið, alls ekki þannig að það sé hægt að gera, viljandi eða óviljandi, fullt af mistökum, t.d. við innslátt þegar vara er greidd. Það fer bara eftir því hvernig viðkomandi aðili sem tekur við greiðslunni stimplar upphæðina inn hvort það er í virðisaukaskattsþrepi 7%, 25,5% eða bara ekkert. Það er jafn alvarlegt ef viðkomandi aðili slær inn í virðisaukaskattskerfi einhverja sölu sem á ekki að vera í neinu þrepi, er með 0% skatt, er í 3. flokki í raun og veru. Eina einföldunin er þessi sem hér er.

Ég ætla að gera aðeins að umræðuefni það flókna kerfi sem er í ferðaþjónustunni, kerfi sem margir telja allt of flókið, að á ferðaþjónustuna og ýmsa þjónustu sé hægt að leggja hærri virðisaukaskatt. Ég geri það aftur að umtalsefni hvernig núverandi stjórnarsinnar, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, höguðu sér undir lok síðasta kjörtímabils þegar síðasta ríkisstjórn ætlaði sér að gera breytingar á virðisaukaskattskerfinu gagnvart ýmsu í ferðaþjónustunni. Þá höfðu menn hátt, töluðu mikið, beittu sér fyrir miklum fundum og þrýstingi og töluðu gegn þessu eins og hér hefur komið fram. Í andsvari við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson áðan spurði ég hann út í þriggja mánaða aðlögunartíma sem hér er boðaður sem þeir beittu sér gegn sem stjórnarandstæðingar, meira að segja hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson og fleiri. Þar var sex mánaða aðlögunartími, sex mánaða fyrirvari, sem var svo lengdur upp í níu. Að lokum tókst það en núverandi hæstv. ríkisstjórn felldi þetta svo úr gildi.

Það var margt flókið í þessu kerfi. Það má til dæmis segja að ferðaþjónustuaðilar hafi hag af því að reka ferðaþjónustu. Þeir geta selt mér pakka upp á 100 þús. kr. og ferðaskrifstofurekstur ber engan virðisaukaskatt. Gisting ber 7% virðisaukaskatt, matur 25,5% og vín 25,5% og sumar ferðir 0% en aðrar 7%. Í framkvæmd getur ferðaskrifstofan sagt að helmingurinn af þessu, þess vegna 50 þús. kr., sé ferðaskrifstofurekstur og beri engan virðisaukaskatt. Fínasti matur á fínasta veitingastað er verðlagður á 2.500 eða 5 þús. kr. og af þeirri upphæð er borgaður skattur. Vínföngin geta sömuleiðis verið í uppgjöri en niðurgreidd og svo munar hvort ferðin er farin á hestum með leiðsögumanni eða ekki leiðsögumanni. Það er alveg hárrétt að þetta er allt of flókið þannig að að því leytinu til er í þessu frumvarpi farið hér í ákveðna einföldun á kerfinu sem á þá að gera það að verkum að það verður auðveldara að gera upp og ríkið fær þá meira af þessari starfsemi. En það fylgir ýmislegt meira með eins og ég hef gert að umræðuefni en ætla ekki að eyða meiri tíma í, þ.e. ný skattlagning á íþróttaferðalög barna og unglinga. Þau munu koma inn með 12% virðisaukaskatt. Ég teldi þá eðlilega mótvægisaðgerð að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að ferðajöfnunarsjóður íþróttafélaga, með því fallega nafni ferðajöfnunarsjóður, yrði efldur stórlega. Mér skilst að það standi samt ekki til. En við skulum vona að þessi umræða leiði til þess að þeir aðilar sem fá frumvarpið og sitja í þeirri nefnd sem fer með þetta mál, efnahags- og viðskiptanefnd, taki þetta til skoðunar ásamt ýmsu öðru í ferðaþjónustu eins og dæmið sem ég nefndi áðan sem á að girða fyrir að menn geti leikið sér með þessar upphæðir, þ.e. hvernig þær eru gerðar upp á virðisaukaskattsskýrslu. Ég vona að nefndin skoði þá líka hvað ferðaþjónustan eins og hún hefur verið undanfarin ár hefur fengið í útskatt á móti innskatti vegna þess að það er alveg rétt, það kom fram síðast og það var ein af mörgum ástæðum þess að menn vildu breyta þessu kerfi, að menn vissu að sumir í ferðaþjónustu fengju greitt til baka af því að innskatturinn er meiri en útskatturinn. Ríkissjóður á ekki að greiða til baka í því þannig að gagnvart því er jákvætt að skoða þetta þótt ýmislegt annað fylgi hér með, eins og ég segi.

Varðandi vörugjöldin er ég sömuleiðis mjög hlynntur því, skulum við segja, að þessi skoðun fari fram. Ég vil hins vegar segja að þetta er öruggasta skattheimtan í þessu kerfi. Hún skilar sér 100% til ríkissjóðs vegna þess að þetta er lagt á þegar varan er flutt til landsins og innflytjendur fá ekki vöruna fyrr en búið er að greiða vörugjöld og tolla af henni. Þá varðar okkur ekkert um hvað gert er við hana þegar hún ber svo virðisaukaskatt í framhaldi af því. Þetta eru 6,5 milljarðar í dag sem skiptast þannig, eins og hér er sagt á einum stað í frumvarpinu, að 3 milljarðar af þessum 6,5 eru tekjur ríkissjóðs af matvælum. 3,5 milljarðar eru aðrar vörur, eins og raftæki til heimilisnota sem eru nálægt 1,4 milljarðar, bílavörur 0,5 milljarðar, byggingarvörur 1,2 milljarðar og ýmsar vörur, svo sem varahlutir í raftæki, 0,4. Þetta eru samtals 3,5 milljarðar kr. Þetta er sem sagt mjög öruggur tekjustofn en hann er flókinn í framkvæmd. Þetta eru 800 vöruflokkar og eins og hér hefur komið fram er í raun mjög ósanngjarnt hvernig hann er lagður á. Dæmið af samlokugrillinu á móti brauðristinni er gott.

Ég get nefnt annað dæmi, sem ég hef rætt við síðustu tvo eða þrjá fjármálaráðherra, af innlendri iðnaðarframleiðslu sem er í samkeppni við vörur erlendis frá, að sjálfsögðu. Norður í Ólafsfirði eru byggðir slökkvibílar og sjúkrabílar. Allar innflutningsvörur, hvort sem það eru ljós, skrúfur eða annað, bera vörugjöld og íþyngja þá íslenskri starfsemi gagnvart því að vera samkeppnisfær við fullútbúna bíla erlendis frá. Komi þeir frá Evrópska efnahagssvæðinu bera þeir ekki þessi gjöld. Að því leytinu skekkja þeir og gera innlendri starfsemi erfiðara fyrir. Þarna hef ég nefnt tvö atriði af því sem ég tel til bóta í þessu frumvarpi.

Þá kem ég að síðasta þættinum sem er hækkun á lægra þrepinu úr 7% í 12% og þá alveg sérstaklega hvað varðar matvöruna. Hér hefur átt sér stað umræða um þetta og það verð ég að segja alveg eins og er að ég lýsi mig andvígan þeirri breytingu vegna þess að ég treysti ekki þeim mótvægisaðgerðum sem eru lagðar á borð fyrir okkur í frumvarpinu, hvernig það er reiknað út. Ég hef að sama skapi fyrirvara um að vörugjöld og lækkun virðisauka í efra þrepinu skili sér í fullkominni lækkun vöruverðs í landinu. Það getur vel verið að hún geri það fyrst en það getur skeð í framhaldi af því að álagning viðkomandi aðila hækki meira en hún er í dag og þar með hækkar varan. Það er þetta með matarskattinn sem ég stoppa við.

Ég stoppa til dæmis við þá umræðu sem hér hefur verið í dag þar sem menn tala um ráðstöfunartekjur heimila, að lægst launaða fólkið eyði 20% í mat. Hér hafa nokkrir þingmenn nefnt töluna 150 eða 160 þús. kr. ráðstöfunartekjur hjá þeim sem lægst laun hafa í þjóðfélaginu. Ég leyfi mér að efast um að viðkomandi fjölskylda eyði ekki nema 25–30 þús. kr. í matarkaup á mánuði. Ég leyfi mér bara að efast um að þessar forsendur séu réttar. Ég skil ekki hvernig einstaklingur með 150 þús. kr. í ráðstöfunartekjur eyðir eingöngu 20% eins og ASÍ segir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt töluna 15–18%, (ÖS: 15.) 15, þá er þessi tala þar … (Gripið fram í: Af útgjöldum.) Heildarútgjöldum? Við vorum að tala um ráðstöfunartekjur, menn voru að tala um þær áðan og þá skil ég það ekki. Þess vegna geld ég varhuga við þessum útreikningum. Lágtekjufólk fær til dæmis barnabætur ef börn eru á heimilinu. Aldraðir fá þær að sjálfsögðu ekki og hér er ekki talað um hvernig á að koma til móts við aldraða og öryrkja. Ég leyfi mér mjög að efast um að þær mótvægisaðgerðir sem sjá má í fjárlagafrumvarpinu bæti öldruðum og öryrkjum þá skerðingu sem verður á hækkun matvælaverðs. Ég hef enga trú á þeim útreikningum og ég sé ekki hvernig það á að gerast hér. Það er líka varðandi barnabæturnar og þá er ég ekki að tala um tekjulægsta fólkið heldur millistéttina.

Fjölskylda með 500–600 þús. kr., jafnvel 700 þús. kr., á mánuði skerðist í barnabótum og fær nánast ekki neitt. Þær barnabætur sem sýndar eru hér koma ekkert til móts við það.

Virðulegi forseti. Tíminn sem maður hefur til umráða við 1. umr. líður hratt þar sem menn viðra skoðanir sínar og benda á atriði sem betur mættu fara vegna þess að nefndin tekur þetta til umfjöllunar. Vonandi verður það góð vinna og mikið af gögnum kallað inn sem við höfum ekki séð, eins og með skiptingu vörugjalda og annað slíkt, að við förum í gegnum þetta. Ég átti andsvar við hæstv. ráðherra um átakið Allir vinna vegna þess að hér kom fram að lækkun efra þrepsins muni leiða til 1% lækkunar á byggingarkostnaði. Tekið var dæmi af 42 millj. kr. raðhúsi og þá eru 420 þús. öll lækkunin hvað það varðar.

Við breytinguna sem er í öðru frumvarpi á átakinu Allir vinna, þ.e. að taka endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað úr 100% niður í 60%, hverfur þessi ávinningur algjörlega. (Fjmrh.: Afslátturinn er fyrir endur…) Afslátturinn kemur inn í alla þessa þætti. Þetta átak er kúttað niður hvað það varðar og það hefur áhrif, en þetta sjáum við hvergi í þeim útreikningum sem fylgja þessu frumvarpi sem eiga að vera réttlæting stjórnarflokkanna fyrir því að þetta sé skynsamleg breyting.

Ég þykist sjá að hjá framsóknarmönnum gera þessir þættir það að verkum að þeir hafa fyrirvara og hafa lýst andstöðu við þetta verkefni. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, er nú komin í salinn. Hún hefur lýst yfir andstöðu sinni við þetta frumvarp gagnvart matarskattinum (Gripið fram í.) og nú trúi ég ekki öðru en að hún sé komin á mælendaskrá og að við munum þá heyra hvað það er í þessu frumvarpi sem hún er (Forseti hringir.) ósátt við og hverju hún vill breyta.