144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingar á virðisaukaskatti, um afnám vörugjalda, um breytingar á tekjuskatti og breytingar á lögum um barnabætur. Sumt af þessu eru gamlir kunningjar og eðlilega hafa verið gerðar breytingar í tímans rás á skattkerfinu og við höfum stundum tekist á um það í þessum stóli. Ég lái engum sem skiptir um skoðun, hefur íhugað málin og skiptir um skoðun eins og ríkisstjórnin hefur gert t.d. varðandi gistináttagjaldið. Það er hins vegar svolítið skondið þegar það er hugleitt að ekki er nema rúmt ár frá því við vorum í þessum sal að ræða um gistináttagjald sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði lögfest en stjórnarmeirihlutinn taldi mjög svo af hinu illa.

Ég minnist hvaða röksemdir voru reiddar fram. Bæði í greinargerð hæstv. fjármálaráðherra og í ræðum sem hann flutti hér á þinginu sagði hann að það væri skaðlegt að hækka álögur á ferðaþjónustuna vegna þess að það mundi draga úr neyslu, það gæti orðið til þess að ferðamenn kæmu ekki til landsins í þeim mæli sem annars yrði. Þetta var sagt þótt allt benti til þess að ferðamannastraumurinn færi vaxandi og jafnvel þó mjög að áhöld væru um að við réðum við þann fjölda sem kæmi til landsins.

Hitt atriðið man ég líka vel hvert var, það var fyrirvarinn, að fyrirvarinn væri of skammur, enda þótt við hefðum rætt málið með árs fyrirvara og lögfest það með hálfs árs fyrirvara ef ég man rétt þótti það of skammur fyrirvari fyrir ferðaþjónustuna. Ég virði þau sjónarmið að atvinnurekstur og einstaklingar og fjölskyldur eiga að fá að vita hvað er í vændum varðandi skatta, ég geri það, en þarna var fyrirvarinn engu að síður fjórum sinnum meiri en nú er þegar ríkisstjórnin hækkar gistináttagjaldið svokallaða úr 7% í 12%. Þannig að þessi rök virðast ekki halda.

Ég endurtek að ekki harma ég það þegar menn skipta um skoðun eins og ríkisstjórnin hefur greinilega gert hvað gistináttagjaldið snertir.

Eitt af því sem á að breyta með þessari lagaspyrðu er afnám vörugjalda. Maður heyrir það í umræðunni núna enduróma frá fyrri tíð, þegar svokallaður sykurskattur var settur á í formi vörugjalda á sykur og sykraðar vörur og gosdrykki, að það þótti afleitt að neyslustýra með sköttum. Það þótti af hinu illa. Nú heyrir maður þessi sömu rök enduróma að nýju.

Hvað er neyslustýring? Verðmyndun á vöru á sér stað með margvíslegum hætti. Það er framleiðslukostnaður, það eru vissulega arður sem þeir sem eiga framleiðslutækið taka út úr framleiðslunni og það eru skattar og álögur. Það er álagning sem er sett á vöruna í verslunum. Allt myndar þetta verð á vörunni og stýrir neyslunni að einhverju leyti.

Mig langar til að taka eitt dæmi um neyslustýringu sem er mjög áþreifanlegt. Í september hygg ég að það hafi verið á síðasta ári birti Krabbameinsfélag Íslands skýrslu sem Ingimar Einarsson, sérfræðingur á heilbrigðissviði, hafði unnið. Hún sýndi að kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi næmi núna um fimmtungi, að um 20% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála eða kostnaði við að reka heilbrigðiskerfið kæmi úr vasa neytenda beint. Þetta er ekkert nýtt. Þetta er ekkert að gerast núna eða í gær eða fyrradag. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað í langan tíma og hann fór aftur til tíunda áratugarins til að sýna fram á hver framvindan hefði verið að þessu leyti.

Síðan er gerð önnur könnun. Ég hygg að það hafi verið í byrjun þessa árs. Það var Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Rúnar Vilhjálmsson prófessor kynnti þá skýrslu. Þar kom fram hið sama að kostnaðarþátttaka sjúklinga væri að aukast en það sem meira var, og það var reyndar í anda þess sem lá í skýrslum Ingimars Einarssonar einnig, var að tekjulítið fólk var farið að veigra sér við því að leita til læknis. Ég man ekki í hvorri skýrslunni það kom fram, ég hygg það hafi verið hjá Rúnari Vilhjálmssyni eða Félagsvísindastofnun, að á þeim tíma sem rannsókn hans tók til hefði þriðji hver Íslendingur neitað sér um læknisþjónustu eða skotið henni á frest af einhverjum ástæðum og í sumum tilvikum fjárhagslegum ástæðum. Þetta er neyslustýring í heilbrigðiskerfinu. Þegar verðlagið er haft með þeim hætti að fólk getur ekki keypt þá þjónustu eða notið þeirrar þjónustu vegna féleysis. Það er neyslustýring.

Nú ætlar ríkisstjórnin að neyslustýra börnunum okkar og ungviðinu í kókflöskuna, í appelsíndrykkinn. Það er neyslustýring líka. Ríkisstjórnin er að taka ákvörðun um neyslustýringu með afnámi sykurskattsins. Alveg þvert á ráðleggingar sem komið hafa frá lýðheilsusérfræðingum og læknum ætlar ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að neyslustýra íslensku samfélagi ofan í gosflöskuna og konfektkassann. Ríkisstjórnin hælir sér af því í greinargerð með þessu frumvarpi hve mikið konfektkílóið komi til með að lækka þegar búið er að lækka eða afnema vörugjöldin, og hvað kókið muni lækka mikið á lítra. Það er gerð ítarleg grein fyrir því í frumvarpinu. Þannig að við erum að tala hér um neyslustýringu.

Annað sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ætla að neyslustýra hefur að gera með menninguna. Það á að gera bækur dýrari. Muna þingmenn og þeir sem kunna að heyra þessi orð eftir því hve rithöfundar fögnuðu þegar virðisauki á bækur var lækkaður á sínum tíma? Var það ekki 2007? Þá var hann lækkaður niður í 7%. Það var fagnað um landið. Þetta þótti mikið framfaraskref. En hvað núna? Hvað segir sami hæstv. fjármálaráðherra og hafði áhyggjur af því að hækkun á virðisaukaskatti mundi fæla fólk frá landinu, frá því að heimsækja okkur, um menninguna? Er ekki verið að fæla fólk frá því að lesa bækur og kaupa bækur? Hvers vegna halda menn að bókaútgáfan kvarti og beini þeim orðum til yfirvalda og til Alþingis að falla frá þessum sjónarmiðum?

Síðan er annað. Ég vil hlusta á hvað Bændasamtökin eru að gera og hvað hinn skeleggi formaður þeirra, Sindri Sigurgeirsson, segir í blaðagrein í Morgunblaðinu 13. september um verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði. Er Framsókn alveg hætt að hlusta á bændur? Er sú rót alveg sundurskorin sem einu sinni var sterk? Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir, með leyfi forseta:

„Verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði byggist á mörgum þáttum. Fyrir utan það að bændur nýta landsins gæði þá má horfa í þann sparnað sem það hefur í för með sér fyrir þjóðarbúið að eiga innlendan landbúnað. Við spörum gjaldeyri með því að framleiða eigin mat í stað þess að flytja hann inn frá útlöndum. Það er líka öryggi fólgið í því að eiga innlenda matvælaframleiðendur — það er eitthvað sem allar þjóðir leggja mikla áherslu á.“

Ég tek undir þessi orð. Ég vek líka athygli á því að hann á í blaðadeilum við fulltrúa verslunarinnar sem hafa að undanförnu vegið nokkuð að landbúnaðinum og samtökum bænda. Hann kemur með ágætar hugleiðingar og staðreyndir fram í þeirri grein sem ég vísa til og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. september. Þar segir hann að bændur séu gagnrýndir fyrir það að vegna mjólkurskorts hafi nautakjöt hækkað í verði frá framleiðendum um rúmlega 20% á síðustu 12 mánuðum. Ég vitna núna í greinina, með leyfi forseta:

„Það er auðvelt að skella fram ólíkum tölum og draga margvíslegar ályktanir. Það er líka hægt að nefna að frá bankahruninu hefur nautakjöt hækkað í verði um 40% á meðan verð á brauði og kökum hefur hækkað um 74%. Á tímabilinu hækkaði vísitala neysluverðs um 47%. Staðreyndin er sú að íslenskar búvörur hafa haldið aftur af hækkun vísitölu neysluverðs því þær hafa hækkað minna í verði en innfluttar vörur.“

Ég held, hæstv. forseti, að við eigum að hlusta á þetta fólk. Við eigum að hlusta á íslenska bændur. Við eigum að standa vörð um íslenskan landbúnað. Ég ítreka að þær ráðstafanir sem hér er verið að grípa til eru mér mjög lítt að skapi.

Kem ég nú að því sem ég gjarnan hefði viljað halda lengstu ræðuna um eða langa ræðu um en á aðeins eftir tæpar tvær mínútur. Það er um framhald á þessari samlíkingu um neyslustýringu. Ég vitnaði í rannsóknir sem leiddu það í ljós að fátækt fólk á Íslandi og fólk með tiltölulega litlar tekjur er farið að veigra sér við því að leita til læknis, það hefur ekki efni á því. Það er þó væntanlega það fyrsta sem þú gerir fyrir þig og börnin þín er að leita eftir heilbrigðisþjónustu og lækninga. En hvað gerirðu svo? Þú kaupir mat. Því minni tekjur sem þú hefur því meira hlutfall þeirra fer að sjálfsögðu til matarkaupa. Hvað gerirðu ef verð á heilbrigðri, góðri íslenskri matvöru er hækkað? Þú kaupir væntanlega það sem er að lækka í verði sem er þá aðflutt, erlend matvara. Það er verið að afnema vörugjöldin sem hafa áhrif á þá vöru til lækkunar. Þetta er sjónarmið sem bændur hafa teflt fram líka.

Ég vek athygli á því og ítreka að þegar við greiðum endanlega atkvæði um þetta mál eða þegar það kemur til umfjöllunar í þinginu, það á náttúrlega eftir að fara til nefndar, þá hugleiðum við hve afdrifaríkar þær ákvarðanir sem hér eru teknar og lúta að verðstýringu og neyslustýringu eru og hvort ekki eigi að vera samantekin ráð okkar að reyna að stuðla að því að við búum þannig að þjóðinni (Forseti hringir.) og ungviðinu sérstaklega að það geti notið góðrar heilsusamlegrar (Forseti hringir.) fæðu. Þetta frumvarp gengur þvert á það.